• Ben_gron_fuglar

Þrjú handrit

Benedikt Gröndal 1874-1905

Eftir Benedikt Gröndal liggja nokkur handrit og stakar teikningar sem hann gerði af íslenskum dýrum og jurtum. Þau eru varðveitt hvert í sinni stofnun sem koma að þessari sýningu og eru sýnd hér saman í fyrsta sinn. Dýraríki Íslands í Landsbókasafninu er stærsta handritið og inniheldur 107 arkir með teikningum af íslenskum dýrum. Handrit fuglabókar Benedikts, Íslenskir fuglar, á Náttúrufræðistofnun Íslands hefur að geyma heildaryfirlit yfir alla fugla sem sést höfðu á Íslandi svo vitað væri fram til ársins 1900, alls 100 tölusettar teikningar. Eggjabókin í Þjóðminjasafninu, Íslensk fuglaegg ásamt eggjum aðkomufugla, telur 20 myndablöð með litmyndum af eggjum í náttúrulegri stærð.

Benedikt raðar myndefni sínu fallega upp á hverri síðu og oft eru nokkrar tegundir saman á mynd. Hverri teikningu fylgir misítarleg lýsing á viðkomandi fyrirbæri sem Benedikt skrautskrifaði sjálfur auk þess að skrautskrifa titilsíðu og formála að handritum sínum. Benedikt segir um teiknivinnu sína: „En ég hafði aldrei neina tilsögn, ég sá aldrei neinn mann sem kunni að teikna, ég fann sjálfur hvernig ég skyldi fara að, og þegar ég kom til Hafnar og fór að „læra“ að teikna og mála hjá Bayer þá fór hann að eins og ég, svo ég lærði ekkert. Maður kennir sér sjálfur það sem maður er náttúraður fyrir, en maður getur lagað smekkinn og fullkomnast í því að taka eftir fögrum fyrirmyndum, en maður á aldrei að halda sér til annars en þess sem er ágætt, og maður finnur fljótt hvað það er.“

Benedikt Gröndal var fyrstur Íslendinga til að ljúka meistaraprófi í norrænum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla. Hann samdi kennslubækur í náttúrufræðum, var listaskrifari og teiknari og þjóðþekkt skáld. Benedikt var frumkvöðull í söfnun náttúrugripa og einn helsti hvatamaður að stofnun Hins íslenska náttúrufræðifélags árið 1889 og fyrsti formaður þess.

Lbs 865 fol. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn

Þjms 9136, Þjóðminjasafn Íslands

NÍ CD32:1, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúruminjasafn Íslands