• Ruri-LI_07302-

Sjö metrar

Rúrí tekst á við þá þraut að velja sér sjö venjulega eins metra tommustokka sem efnivið og skapa úr þeim marktækt listaverk. Útkoman er ekki fjarri sýnikennslu í eiginleikum tommustokksins, enda átti listakonan eftir að nýta sér þessa fjöldaframleiddu kjörgripi út í æsar. Sjö metrar er dæmigert fyrir fyrstu skrefin sem Rúrí tók á þessari óvenjulegu braut, sem átti hug hennar lungann úr tíunda áratug liðinnar aldar. Verkið flokkast sem lágmyndir þar sem sex stokkar mynda ýmis geometrísk tilbrigði, þríhyrninga, ferninga og tígul sem afleiður af sjöunda tommustokknum, útdregnum í beina lóðrétta línu. Án þess að hverfa nokkurn tíma frá þeim takmörkunum sem metralangur tommustokkurinn setti henni sem skilyrði tókst Rúrí að búa til fjölda hvers konar lágmynda, sem einungis voru byggðar á möguleikum þessa takmarkaða kvarða. Fáeinum árum síðar var hún búin að frelsa tommustokkinn frá veggnum og gera úr honum þrívíðar einingar sem stóðu frístandandi á gólfi sýningasalarins.

Metrinn eða mælieiningin, eins og þýðing á gríska heitinu hljóðar á íslenskri tungu, á sér töluverða sögu allt aftur til ofanverðrar 17. aldar.  Til þess að búa til algilda tugatengda mælieiningu var tekið mið af vegalengdinni frá Norðurpólnum að miðbaug. Metri er tugmilljónasti hluti þeirrar vegalengdar. Mælieiningin var formlega tekin í gagnið í Frakklandi árið 1795. Síðan þá hafa flestar þjóðir heims valið að taka upp metrann sem aðalmælieiningu sína.

LÍ 7302

Listasafn Íslands