• Snaefellsnessysla_006

Manntalið 1703

Einn helsti sögulegi dýrgripur hér á landi er manntal sem tekið var um allt Ísland árið 1703. Í daglegu tali er það kallað Manntalið 1703. Það er varðveitt í heild sinni og skráð á alls 917 blöð og er rúmlega 1700 ritaðar síður. Fjölbreytni manntalsskýrslnanna er áhugaverð, enda eru þær ólíkar að stærð og framsetningu og með mörgum rithöndum. Sumir skrásetjarar hafa vandað mjög til verka með tilheyrandi hreinritun, skrauti og flúri á meðan aðrir hafa skilað inn heldur hrárri talningu. Hér má sjá sýnishorn frumskjalanna. Sumarið 2013 tók Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, manntalið á skrá sína Minni heimsins.

Vegna mikilla harðinda í lok 17. aldar og afar bágrar stöðu landsmanna ákvað Friðrik IV. Danakonungur að fela Árna Magnússyni prófessor og Páli Vídalín varalögmanni að rannsaka hag þjóðarinnar, og meðal annars „samantaka eitt fullkomið registur yfir alt fólkið í landinu, ungt og gamalt, manns og kvenpersónur.“ Manntalið vakti mikla athygli á sínum tíma og var veturinn 1702-1703 nefndur manntalsvetur. Íbúar á Íslandi voru þá alls 50.366 manns, þar af karlar 22.874 og konur 27.492. Í landinu voru samkvæmt manntalinu 670 hreppsstjórar, 245 prestar, 76 skóladrengir, 38 barnfóstrur, 7 böðlar og 6 fálkaveiðimenn. Þar eru skráð 725 skírnarnöfn, 387 karlmannsnöfn og 338 kvenmannsnöfn. Algengustu nöfnin voru Jón og Guðrún.

Manntalið 1703 er elsta manntal í heiminum sem varðveist hefur og nær til allra íbúa í heilu landi þar sem getið er nafns, aldurs, heimilisfangs flestra og þjóðfélags- eða atvinnustöðu allra. Enginn önnur þjóð í heiminum á jafn nákvæmar lýðfræðiupplýsingar um íbúa sína frá þessum tíma.  Manntalið 1703 er að finna á vef Þjóðskjalasafns Íslands í myndum og í leitarbærum gagnagrunni.

Þjóðskjalasafn Íslands

ÞÍ Rentukammer. 1928-11, D1/1 og D1/2 .