• Thjms_10902
  • Thjms_10902a
  • Thjms_10902b

Veggtjald

nafn listamanns/-konu óþekkt 1600-1700

Fátt er vitað um uppruna þessa stóra veggtjalds. Þar má sjá  bekki með blómknúppum og sjö hringi þar sem í eru saumaðar myndir sem endurspegla frásagnir af lífi og dauða Jesú Krists. Sagan er sögð frá hægri til vinstri. Blómamunstur er á milli hringanna og beggja vegna við skírnarmyndina, sem er önnur frá hægri, eru englar í sporbaugum sem blása í hljóðfæri og þykkvaxinn engill er á einum stað. Sá eða sú er saumaði tjaldið hefur haft ágætt vald á teikningu blómaskrúðsins en erfiðara hefur reynst að koma mannverum í textílinn. Ekkert er vitað hvar tjaldið var notað en sennilegt er að það hafi verið gert fyrir kirkju. Refillinn er úr hörlérefti, útsaumaður með varplegg (kontórsting) með ullargarni í mörgum litum. Áletranir er saumaðar með gamla krosssaumnum.

Yst til hægri er María mey með kórónu og geislabaug og heldur á Jesúm í fanginu. Í næsta reit skírir Jóhannes Jesú í Jórdan en þá birtist honum heilagur andi í líki dúfu sem svífur ofan við. Þá er mynd af Kristi krossfestum. María og Jóhannes standa við krossinn og krossfestir ræningjarnir tveir til hliðanna. Í miðju er greftrun Jesú. Einn viðstaddra, sem flestir hafa geislabauga, lyftir honum en mannveran í forgrunni með strúthatt ber bjöllur við belti. Þá er mynd af Kristi upprisnum framan við grafarmunnann með sigurfána í hönd, umkringdum vopnuðu en skelkuðu fólki. Næst er himnaför Jesú. Lærisveinarnir horfa á hann hverfa upp á himinhvelfinguna en fótsporin hans verða eftir í myndfletinum. Yst til vinstri er koma heilags anda af himnum í dúfulíki. Frá honum stafar geislum niður til ellefu postula, sem skelfdir horfa til himins. Júdas hefur ekki komist á léreftið frekar en oft áður.

 

Þjms 10902

Þjóðminjasafn Íslands