• Muggur, Sjöundi dagur í paradís

Sjöundi dagur í Paradís

Guðmundur Thorsteinsson, Muggur 1920  

Guðmundur Thorsteinsson, Muggur, skildi eftir sig allnokkur verk trúarlegs eðlis og er Sjöundi dagur í Paradís eitt þekktasta verk hans. Myndrými þess er eins og sviðsetning í leikriti þar sem sjá má Guð almáttugan ganga inn á sviðið frá vinstri ásamt tveimur englum í humátt á eftir. Samkvæmt Gamla testamentinu hafði Guð á sjöunda degi skapað heiminn og tók sér því hvíld. Ef vel er að gáð má sjá framandleg dýr inn á milli gróðursins, svo sem gíraffa, kengúru og háfætta fugla. Í dularfullri bleikri birtunni má sjá andlit skaparans sem er afar fínlega teiknað og ber vott um nostursamleg vinnubrögð höfundarins.

 

Muggur fæddist á Bíldudal árið 1891. Hann bjó við gott atlæti og naut stuðnings fjölskyldunnar í námi og starfi. Að loknu myndlistarnámi í Kaupmannahöfn átti hann þess kost að ferðast víða um Evrópu og vestur um haf með skipi föður síns til New York. Eftir viðburðaríka ævi lést hann fyrir aldur fram úr berklum aðeins 33 ára. Muggur byrjaði ungur að teikna og mála myndir og vinna ýmiskonar handavinnu eins og tíðkaðist á æskuheimilinu, þar sem setið var saman á kvöldin við útsaum, lestur og spjall. Það var honum því fullkomlega eðlilegt að nota margskonar efnivið til myndsköpunar. Verkið Sjöundi dagur í Paradís er dæmi um mynd sem unnin er á óvenjulegan hátt þar sem margvíslegur tilbúinn pappír er notaður, bæði mattur og glansandi auk pappírs sem hann litaði sjálfur. Að því leyti skapaði hann sér sérstöðu meðal íslenskra myndlistarmanna, því fremur var litið á slík verk sem föndur en alvarlega myndlist.

 

LÍ 1051

Listasafn Íslands