• Predikunarstóll Hjalta Þorsteinssonar

Prédikunarstóll

Hjalti Þorsteinsson 1725-1733

Prédikunarstóll þessi er úr kirkjunni í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp, gerður af séra Hjalta Þorsteinssyni sem var prestur þar árin 1692-1742. Hann smíðaði einnig kirkjuna sjálfa og skreytti hana alla að innan með máluðum myndum, en þær hafa því miður ekki varðveist.

Prédikunarstóllinn er í barokkstíl og efst á honum er ritningargrein: Sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það. Þar undir eru upphleyptar myndir af Kristi og guðspjallamönnunum Jóhannesi, Markúsi, Matteusi og Lúkasi og stendur hver þeirra á palli með einkennistáknum sínum framan á: Guðs lamb er hjá Kristi, örn hjá Jóhannesi, vængjað ljón hjá Markúsi, engill hjá Matteusi og naut hjá Lúkasi. Neðst eru svo útskornar englamyndir.

Útskurðurinn er vandaður og vitnar um góðan handverksmann, þó ekki atvinnutréskera, og er ólíkur flestum öðrum íslenskum verkum af sama toga. Séra Hjalti var menntaður í söng og hljóðfæraslætti í Kaupmannahöfn en hann lagði þar jafnframt stund á myndlist. Auk útskurðarins er hann best þekktur fyrir málaralist og eftir hann hafa meðal annars varðveist myndir af biskupshjónum, prestum og sýslumönnum.

Þjms 10476


Þjóðminjasafn Íslands