• Heynesbók

Heynesbók

nafn listamanns/-konu óþekkt 1400-1500

Á spássíum íslenskra handrita má víða finna alls kyns myndefni, allt frá viðvaningslegu kroti og eftiröpun til mynda sem greinilega eru gerðar af hæfileikaríkum teiknurum. Fáar bækur eru jafn mikið skreyttar fjölbreyttum og litskrúðugum mannlífsteikningum og lítið Jónsbókarhandrit frá því undir lok 15. aldar sem kennt er við bæinn Heynes. Nánast hver síða Heynesbókar er nýtt til hins ýtrasta þar sem spássíumyndir prýða þann hluta síðunnar sem ekki inniheldur texta. Á spássíum eru myndir sem sýna gamla þjóðlífshætti og líf alþýðunnar, slátrun, öldrykkju fólks, skipaferðir, hesta- og hundaat, heyannir og margt fleira. Myndir eins og þessar hafa heimildagildi því þær geta sagt okkur menningarsögu, af þeim má til dæmis álykta um klæðaburð fólks og lifnaðarhætti. Auk mannlífsmynda skjóta upp kollinum ýmsar kynjaskepnur hér og hvar.

 

Undir mynd sem sýnir nýslátraðan nautgrip stendur: dauð er baula. Á öðrum stað eru sýndar mælingar og mælitæki. Við fyrstu myndina stendur: rett er stikan, við þá næstu: rangur pundari og þá þriðju: þetta er skjóla. Kona liggur út af með lokuð augu á einum stað og önnur kemur færandi hendi með ölkönnu. Undir liggjandi konunni er skrifað: ek get nu eigi drukkit lengra. Maður liggur út af í fleti á einni mynd og skýlir augum sínum með annarri hendi. Annar situr með lokuð augun, þreytulegur að sjá. Undir liggjandi manninum er skrifað: Hér ligg ek drukkinn og undir hinum sitjandi: Hér sit ek sofandi og fordrukkinn. Menn sjást við fisk- og fuglaveiðar og eggjatínslu. Einn hefur fangað vænan fugl, annar hefur lent í klónum á fugli sem reynir að verja eggin sín og sá þriðji hefur komist yfir fisk. Þá sést maður róa frá bæ sínum á árabát. Á bakkanum hinum megin bíður hans maður með sauð. Í ramma fyrir framan sauðinn stendur skrifað í myndasögustíl: viltu flytja sauð.

 

 AM 147 4to

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum