• Jon_Stefansson-LI_06304_HR

Móðir jörð

Jón Stefánsson 1915

Í verkinu Móðir jörð  getur að líta kunnugleg einkenni listamannsins Jóns Stefánssonar en um leið er þar margt frábrugðið hans þekktustu verkum. Í fjarska er að því er virðist íslenskt landslag en þegar framar dregur í myndfletinum bregður við annan tón og vaxa þar framandi jurtir. Allt er þetta umgjörð tveggja vera með hvítar skuplur. Önnur stendur vinstra megin í gulleitum kufli og horfir eins og forviða á hina sem rís upp við dogg í rauðum kufli og starir fram fyrir sig á þrjár blaðjurtir með jafnmörgum áberandi frævum. Milli þeirra rís jökulhetta upp af sléttu langt fyrir neðan grasbalann í forgrunninum, sviðsmynd sem er kunnugleg í ýmsum síðari verkum Jóns og gefur til kynna dýpt fjarskans á tilkomumikinn hátt.

Myndir Jóns eru dramatískar, líkt og þær búi yfir þungum og örlagaþrungnum undirómi. Móðir jörð er þar engin undantekning enda fjallar hún að hluta til um algild rök tilverunnar, sem allir lúta en valda engu að síður erfiðleikum og jafnvel þjáningum ef því er að skipta. Þetta er augnablikið þegar börn uppgötva í sér fullorðna manneskju og átta sig af eigin raun á gangverki tilverunnar. Ýmislegt bendir til að Móðir jörð tengist Regnboganum, öðru jafn stórbrotnu verki hans frá upphafsárum heimsstyrjaldarinnar fyrri, en stærð beggja mynda er nánast sú sama. Þar er myndefnið Paradísarlandslag en báðar takast á tilfinningaríkan hátt á við manneskjuna. Jón dró ekki dul á hrifningu sína á Cézanne og litanotkun hans og sem nemandi Henri Matisse í París frá 1908 til 1911 var hann snortinn af aðferðafræði læriföðurins. Picasso vakti einnig áhuga hans og aðdáun, en enginn þessara listamanna var á þeim slóðum þar sem Jón var staddur árið 1915 þegar hann málaði Móður jörð. Aðeins Marcel Duchamp gekk svo langt að lesa úr Maríumyndum fyrri alda táknrænan laundóm, sem líkja má við inntakið í Móður jörð.

LÍ 6304

Listasafn Íslands