• Skautbúningur

Skautbúningur

óþekktar listakonur gullsmíði eftir Magnús Erlendsson 1911

Eftir miðja 19. öld klæddust konur á Íslandi í auknum mæli samkvæmt evrópskri tísku. Sigurði Guðmundssyni málara þótti það slæm þróun og vildi hefja klæðnað landans á þjóðlegra stig. Hann lagðist í rannsóknir og gerði tillögur að skautbúningi sem byggðist á eldri hátíðarbúningi íslenskra kvenna, faldbúningnum. Sigurður leitaði víða fanga í munsturteikningum sínum, s. s. til grískra og býsanskra mynstra, sem þá höfðu náð nokkrum tískuáhrifum í tengslum við nýklassík. Þá horfði hann til íslenskra jurta, rannsakaði þær bæði úti í náttúrunni og í bókum. Í mynstrum hans má einnig sjá áhrif úr fornum handritalýsingum. Síendurteknar fléttur og jurtateinungar eru því áberandi í útsaumsmynstrum og skarti skautbúningsins. Eldri hátíðarbúningar voru gjarna litskrúðugir en Sigurður málari vildi hafa búninginn svartan. Hann áleit svartan vera þjóðlit Íslendinga og að hann ætti best við íslenskan hörundslit. Skautbúningurinn var fyrst borinn árið 1859 og náði fljótt allnokkrum vinsældum. Nafn hans er dregið af höfuðfatinu, skautfaldinum, en í fyrstu beindust gagnrýnisraddir einmitt helst að höfuðbúnaðinum, sem sumum þótti hreint og beint ljótur. Skautbúningurinn náði þó fótfestu sem hátíðarbúningur íslenskra kvenna og hefur haldist með svipuðu sniði til dagsins í dag.

Útsaumurinn á íslenskum búningum er iðulega hreint listaverk. Vitað er að hann var verk kvenna en nöfn listakvennanna eru alla jafna óþekkt. Svo er einnig um skautbúninginn sem hér er til sýnis. Saumgerðin í boðungum skauttreyjunnar er svokölluð baldýring og er saumuð með gylltum vírþræði. Saumgerðin í mynsturbekknum neðst á pilsinu, sem einnig er kallað samfella, er skattering. Mynstrin eru bæði sótt í mynsturskissur Sigurðar málara og blómið í báðum tilfellum er engjarós sem á pilsinu er samofin býsönskum jurtafléttum. Silfur- og gullsmíði var fram á 20. öld í höndum karla og nöfn þeirra eru oft á tíðum þekkt. Skartið við þennan búning smíðaði Magnús Erlendsson. Það er úr gulli og því nánast einstakt í sinni röð. Gull var afar sjaldgæft á Íslandi og búningaskart alla jafna unnið úr silfri eða ódýrari málmum. Smíðisgerð skartsins er loftverk, fornt handverk sem þekktist nokkuð víða á síðmiðöldum en týndist þegar fram liðu stundir. Föður Magnúsar hafði áskotnast beltisstokkur með loftverki sem hann rakti upp og fann þannig út hvernig smíða mætti eftir honum. Síðar hafa fleiri smíðað loftverk, en það einkennist af útskornum laufum, fléttum og vafningum í síendurteknu mynstri.

 

Þjms 2013-33 (1-15)

Þjóðminjasafn Íslands