• 2371-1

Altarisklæði

nafn listamanns/-konu óþekkt 1500-1550

Saga og uppruni þessa gamla altarisklæðis eru að mestu á huldu. Það er samsett af þremur hlutum úr hörlérefti. Miðhlutinn er þakinn flóknu fléttumunstri með fremur sjaldséðri útsaumsgerð, skakkagliti, úr marglitu ullargarni en sumir flatanna eru með glitsaumi.  Munstrið endurtekur sig aftur og aftur. Á hliðarstykkjum, sem líklega hafa einhvern tíma átt saman, er saumuð áletrun, bæn eða ákall til Maríu guðsmóður. Saumsporið er krosssaumur og gamli krosssaumurinn en ofan og neðan við leturlínu eru munsturbekkir sem gefa vísbendingu um í hvaða röð textinn er lesinn svo hann fái samhengi. Textinn hefst í efri línu vinstra megin: avemari ; en eðlilegt framhald hans, milli sams konar skrautbekkja, er í neðri línu hægra megin: a / hialp / m ;. Bænin heldur áfram í neðri línu vinstra megin:  ier/ þa / ave, og endar á efri borða til hægri: e / maria/. Ekki er óeðlilegt að eitthvað vanti á stafi en bænin skilst: Ave María, hjálp mjer þá, ave María.

Augljóslega hafa tvö hliðarstykkin tilheyrt sama klæði eða tjaldi en eitthvað riðlast til þegar þeim var skeytt við miðjustykkið sem vel gæti hafa verið mun lengra og þá ef til vill verið vegg- eða rúmtjald. Lögun klæðisins og áletrunin eru talin vitnisburður um að það hafi verið í kirkju en ekki er vitað hverri. Það eru þó líkur til þess að það hafi verið á Vesturlandi því klæðið kom til Forngripasafnsins frá Stykkishólmi.

Þjms 2371

Þjóðminjasafn Íslands