Um Safnahúsið

Safnahúsið við Hverfisgötu 15 var hluti af Þjóðminjasafni Íslands frá árinu 2013 - 2021.

1. mars 2021 tók Listasafn Íslands við rekstri Safnahússins.

Í Safnahúsinu er sýningin Sjónarhorn sem er samstarfsverkefni Þjóðminjasafnsins, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Landsbókasafns-háskólabókasafns og Þjóðskjalasafns. 

Símanúmer í Safnahúsinu er 515-9600Saga Safnahússins

 Til að fræðast um sögu Safnahússins er hægt að hlusta á hljóðleiðsögn um Safnahúsið

Safnahúsið við Hverfisgötu var byggt fyrir Landsbókasafn Íslands og Þjóðskjalasafn Íslands og opnað almenningi mars 1909. Þjóðminjasafni Íslands og Náttúrugripasafni var fenginn staður í húsinu frá upphafi. Í húsinu voru því um árabil undir einu þaki allir helstu dýrgripir íslensku þjóðarinnar. Húsið var fljótlega kallað Safnahúsið, þótt það héti það ekki formlega á þeim árum. Einnig gekk það undir nöfnum eins og Menntabúrið og Bókhlaðan og seinna var það oft nefnt Landsbókasafnshúsið.

Helsti frumkvöðull að byggingu Safnahússins var Hannes Hafstein fyrsti ráðherra Íslands. Hannes Hafstein valdi danskan arkitekt, Johannes Magdahl Nielsen, til að teikna húsið. Magdahl Nielsen hafði getið sér gott orð í Danmörku og m.a. komið að nýbyggingu Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn. Sjálfur kom hann aldrei til Íslands en umsjónarmaður byggingarinnar fyrir hans hönd hér á landi var starfsbróðir hans og landi Frederick Kiörboe. Hann teiknaði eikarhúsgögnin í lestrarsalinn sem enn eru í húsinu. Hornsteinn hússins var lagður 23. september 1906, á ártíðardegi Snorra Sturlusonar. Á hann er letrað „Mennt er máttur‟ og er staðsettur í kjallar hússins.

 

Landsbókasafnið og Þjóðskjalasafnið fengu upphaflega um það bil þriðjung hússins hvort til afnota. Að auki fékk Landsbókasafnið lestrarsalinn í miðrými hússins. Þjóðminjasafnið fékk rishæðina og var þar frá 1908 og fram til ársloka 1950 þegar flutt var í núverandi safnhús við Suðurgötu. Bókum og skjölum var þá komið fyrir á hæðinni. 

Niður, ris

Náttúrugripasafnið var á 1. hæð hússins. Þegar safnið flutti út haustið 1960 var húsnæðið fengið handritadeild Landsbókasafns og Handritastofnun Íslands (fyrirrennara Stofnunar Árna Magnússonar) til notkunar. Handritastofnun flutti í Árnagarð í árslok 1969, Landsbókasafnið flutti í Þjóðarbókhlöðuna í lok árs 1994 en geymdi bækur á Hverfisgötunni fram til ársloka 1998. Um sama leyti flutti Þjóðskjalasafnið endanlega í framtíðarhúsnæði sitt að Laugavegi 162.

Á tíunda áratugnum var þannig orðið fyrirséð að söfnin sem höfðu átt samastað í húsinu yrðu hýst í hentugri húsakynnum og að fá þyrfti Safnahúsinu nýtt hlutverk. Ýmsar hugmyndir voru reifaðar en í febrúar 1996 tók ríkisstjórnin af skarið og samþykkti tillögu um að þarna skyldi verða Þjóðmenningarhús. Þjóðmenningarhúsið skyldi vera opinbert sýninga- og fundahús, vettvangur kynningar á sögu Íslands og menningararfi með aðstöðu fyrir fundi, opinberar athafnir og aðra viðburði.

Þjóðmenningarhúsið var vígt á sumardaginn fyrsta árið 2000. Þá voru opnaðar nokkrar sýningar sem hugsaðar voru sem varanlegar sýningar í húsinu, svo sem bókasýning sem Landsbókasafnið kom fyrir í gamla lestrarsalnum en einnig sýningar með gömlum Íslandskortum, skjaldarmerkjum þjóðarinnar og ríkistáknum og opinberum gjaldmiðli. Viðamikil sýning um siglingar og landafundi norrænna manna á miðöldum var opnuð við sama tækifæri. Að auki var komið fyrir fastasýningum í fjórum af sex fundarstofum hússins. Þær voru tileinkaðar leiklist og tónlist og svo Jóni Sigurðssyni og Hannesi Hafstein, forkólfi þess að húsið var byggt. Verslun og veitingastofa tóku til starfa í húsinu á sama tíma.

Þjóðmenningarhúsið var starfrækt sem sjálfstæð stofnun til 1. júní 2013 þegar Þjóðminjasafn Íslands tók við starfseminni. Á þeim rúmlega 13 árum sem Þjóðmenningarhúsið starfaði voru settar upp hátt í hundrað sýningar innan veggja þess og ótal tónleikar, ráðstefnur, fundir, mótttökur og aðrir viðburðir fóru þar fram. Þúsundir skólabarna á öllum aldri lögðu leið sína í húsið í fylgd kennara sinna að kynnast nánar því fjölbreytta efni sem fjallað var um á sýningum í húsinu. Heillandi heimur handritanna, á sýningu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum frá hausti 2002, laðaði jafnt og þétt að bæði nemendur og ferðamenn.

Hægt er að skoða vef Þjóðmenningarhússins hjá  vefsafni Landsbókasafns-Háskólabókasafns.

Vefleiðsögn

Starfsfólk

Beinn sími í Safnahúsið er 515-9600

Nánari upplýsingar um starfsfólk má finna á heimasíðu Listasafns Íslands, www.listasafn.is