Sjónarhorn

ferðalag um íslenskan myndheim

Sýningin Sjónarhorn er ferðalag um íslenskan myndheim fyrr og nú. Í sjö álmum Safnahússins við Hverfisgötu eru jafn mörg sjónarhorn sem tengja saman ólík listaverk og áhugaverða muni, þvert á efni og tímabil. 

Sýningin í Safnahúsinu er samstarfsverkefni
Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og Þjóðskjalasafns Íslands.

Vefleiðsögn

Sérsýning

Óravíddir - orðaforðinn í nýju ljósi

Óravíddir – orðaforðinn í nýju ljósi er innsetning á myndrænni birtingu íslensks orðaforða í þrívídd sem unnin er upp úr Íslensku orðaneti eftir Jón Hilmar Jónsson.

Íslenskt orðanet er umfangsmikið yfirlit í orðabókarbúningi um íslenskan orðaforða og innra samhengi hans, byggt á greiningu á merkingarvenslum íslenskra orða og orðasambanda. Gengið er út frá þeirri forsendu að lesa megi merkingarvensl orða út úr setningarlegum og orðmyndunarlegum venslum þeirra eins og þau birtast í orðasamböndum og samsetningum. Í upphafi lá til grundvallar safn orðasambanda og samsetninga með samræmdri framsetningu sem hefur að geyma rösklega 200 þúsund orðasambönd af ólíku tagi og um 100 þúsund samsetningar. Þetta safn sameinar gagnaefni Stóru orðabókarinnar um íslenska málnotkun (2005) og Orðasambandaskrá Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (áður Orðabókar Háskólans). Til viðbótar þessu efni hefur mjög verið leitað fanga í stafrænum textasöfnum og málheildum, einkum í safninu Tímarit.is og Markaðri íslenskri málheild. Allt þetta efni er tengt flettulista sem sameinar um 250 þúsund einyrtar og fleiryrtar flettur. Nánari upplýsingar má finna hér.

Fyrri sérsýningar

Kjörgripur

Ganýmedes eftir Bertel Thorvaldsen

Eins og í mörgum verka sinna sækir Thorvaldsen innblástur til klassískrar myndlistar Forn-Grikkja bæði hvað varðar myndefni og útfærslu en samkvæmt grískri goðafræði veitti Seifur Tróverjanum Ganýmedes eilífa æsku og býr hann hjá guðunum á Ólympsfjalli og skenkir þeim vín.

Í Reykjavík eru þrjár bronsafsteypur af verkum Thorvaldsens í almannarými auk þess sem þrjú verka Thorvaldsens höggvin í marmara eru í opinberri eigu, Ganýmedes þar á meðal. Í kirkjugörðum landsins má sjá lágmyndir Thorvaldsens á fjölmörgum legsteinum og í söfnum landsins eru varðveittar ýmsar eftirgerðir af vinsælustu verkum hans. Nálgast má upplýsingar um verk Bertels Thorvaldsens í íslenskum söfnum á vefnum sarpur.is.

Fyrri kjörgripir