Sjónarhorn

ferðalag um íslenskan myndheim

Sýningin Sjónarhorn er ferðalag um íslenskan myndheim fyrr og nú. Í sjö álmum Safnahússins við Hverfisgötu eru jafn mörg sjónarhorn sem tengja saman ólík listaverk og áhugaverða muni, þvert á efni og tímabil. 

Sýningin í Safnahúsinu er samstarfsverkefni
Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og Þjóðskjalasafns Íslands.

Vefleiðsögn

Sérsýning

Spegill samfélagsins 1770

almúgi og embættismenn skrifa danakonungi

Í tilefni 135 ára afmælis Þjóðskjalasafns Íslands hefur verið sett upp sýning á úrvali skjala Landsnefndarinnar fyrri 1770. Sýningin verður opnuð fimmtudaginn 15. júní kl. 17 og er hluti af sýningu Safnahússins við Hverfisgötu, sem ber nafnið Sjónarhorn. 

Danski konungurinn sendi þriggja manna rannsóknarnefnd til Íslands árið 1770 til að kanna samfélagið og auðlindir þess. Skjalasafn nefndarinnar, sem nefnd hefur verið Landsnefndin fyrri, er mikið að vöxtum, um 4200 handritaðar síður.

Skjalasafn Landsnefndarinnar fyrri hefur sérstöðu þar sem stór og fjölbreyttur hópur manna sendi nefndinni álit sitt á landsmálum. Til eru bréf sem greina frá aðbúnaði vinnufólks, hjáleigumanna, bænda, hreppstjóra, sýslumanna, presta og biskupa, auk háembættismanna landsins. Vinnugögn nefndarinnar sjálfrar eru ekki síður áhugaverð, þar sem hún lagði mat á íslenskt samfélag og hvað þyrfti að gera til úrbóta.

Sýningin á úrvali skjala Landsnefndarinnar fyrri 1770 er samstarfsverkefni Þjóðskjalasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands. 

Í sérsýningarrými á 3. hæð Safnahússins við Hverfisgötu skiptast á sýningar á vegum þeirra sex stofnana sem standa að sýningunni Sjónarhornum – ferðalagi um íslenskan myndheim.

Fyrri sérsýningar

Kjörgripur

Krossfestingarmynd á skinnblaði frá 14. öld

Á myndinni er hinn krossfesti Kristur fyrir miðju. Fyrir ofan hann er letrað á latínu: Jesús frá Nasaret, konungur Gyðinga. Honum á hægri hönd stendur María guðsmóðir í rauðum kyrtli með bláan höfuðdúk en hinum megin er Jóhannes lærisveinn Krists.

Skinnblaðið er hið aftasta af sjö blöðum sem enn eru varðveitt úr handriti sem skrifað var og skreytt á öðrum fjórðungi 14. aldar. Á fyrstu sex blöðunum er dagatal (ártíðaskrá) en krossfestingarmyndin hefur staðið fyrir framan Davíðssálma (saltara). Saltarinn var notaður við tíðasöng og var algengt á fyrri tíð að ártíðaskrá og saltari væru saman á einni bók. Upphaf saltarans var þá gjarnan markað með heilsíðumynd eins og þeirri sem nú verður sýnd í fyrsta sinn opinberlega.

Handritið var skrifað á Vestfjörðum, hugsanlega í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp í tíð Eiríks Sveinbjarnarsonar hirðstjóra.

Fyrri kjörgripir

Spegill samfélagsins 1770

almúgi og embættismenn skrifa danakonungi

Danski konungurinn sendi þriggja manna rannsóknarnefnd til Íslands árið 1770 til að kanna samfélagið og auðlindir þess. Skjalasafn nefndarinnar, sem nefnd hefur verið Landsnefndin fyrri, er mikið að vöxtum, um 4200 handritaðar síður.

Skjalasafn Landsnefndarinnar fyrri hefur sérstöðu þar sem stór og fjölbreyttur hópur manna sendi nefndinni álit sitt á landsmálum. Til eru bréf sem greina frá aðbúnaði vinnufólks, hjáleigumanna, bænda, hreppstjóra, sýslumanna, presta og biskupa, auk háembættismanna landsins. Vinnugögn nefndarinnar sjálfrar eru ekki síður áhugaverð, þar sem hún lagði mat á íslenskt samfélag og hvað þyrfti að gera til úrbóta.

Sýningin á úrvali skjala Landsnefndarinnar fyrri 1770 er samstarfsverkefni Þjóðskjalasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands. 

Í sérsýningarrými á 3. hæð Safnahússins við Hverfisgötu skiptast á sýningar á vegum þeirra sex stofnana sem standa að sýningunni Sjónarhornum – ferðalagi um íslenskan myndheim.