• Skumur

Fuglsungar

George Miksch Sutton 1958

George Miksch Sutton var virtur fuglafræðingur og listamaður, kunnur fyrir fuglamyndir sem hann teiknaði og vatnslitaði. Hann fæddist 1898 í Bethany í Nebraska, Bandaríkjunum, og lést 1982 í Oklahoma. Eftir hann liggur mikið af fræðilegum tímaritsgreinum auk fjölda vinsælla bóka með myndskreytingum af fuglum og ungum. Áhugi hans á ungum er óvenjulegur því iðulega eru það fullorðnir fuglar sem eru myndefni í teikningum og bókum af því tagi sem hér um ræðir. Hér má sjá unga af eftirfarandi tegundum: Húsönd, heiðlóa, óðinshani, skógarþröstur, skúmur og lundi.

 

George var hálfgerður endurreisnarmaður í þeim skilningi að hann sóttist eftir þekkingu jöfnum höndum í gegnum vísindi og listir. Hann stundaði umfangsmiklar vettvangsrannsóknir, einkum á norðurslóðum og þar á meðal á Íslandi sem hann heimsótti sumarið 1958. Dvölin á Íslandi var sannkölluð ævintýraferð í augum Georges eins og lesa má um í bók hans Iceland Summer sem kom út árið 1961. Í bókinni eru margar vatnslitamyndir af íslenskum fuglum, einkum fuglsungum. Sem þakklætisvott fyrir veitta aðstoð vegna Íslandsheimsóknarinnar og hlýhug til Íslendinga færði George Náttúrufræðistofnun Íslands alls 41 vatnslitaverk. Ein mynda Georges í bókinni, af fálka á klettasyllu, var notuð sem fyrirmynd við hönnun á 25 kr. fálkafrímerki sem gefið var út árið 1960. Fyrir landkynningu og útbreiðslu á íslenskum menningararfi sæmdi forseti Íslands George Miksch Sutton Hinni íslensku fálkaorðu árið 1972.

 

NÍ CD33:1/3, NÍ CD33:1/12, NÍ CD33:1/20, NÍ CD33:1/29, NÍ CD33:1/32, NÍ CD33:1/35

Náttúrufræðistofnun Íslands

Náttúruminjasafn Íslands