• Eggert-Petursson-Veggspjald-hins-islenska-natturufrae_ifelags-1985

Flóra Íslands

Eggert Pétursson 1985

Vatnslitamynd Eggerts Péturssonar er frumgerð af veggspjaldinu Flóra Íslands sem hann gerði fyrir Hið íslenska náttúrufræðifélag og gefið var út árið 1985. Veggspjaldið prýða 63 tegundir af íslenskum háplöntum sem lætur nærri að vera um 15% af öllum tegundum villtra háplantna sem vaxa á Íslandi. Tegundunum á myndfleti Flóru Íslands er skipt í fjóra hópa með hliðsjón af því við hvaða skilyrði þær lifa: 1) Holta- og melagróður (14 tegundir), 2) móa- og graslendisgróður (27 tegundir), 3) votlendisgróður (9 tegundir) og 4) blómlendisgróður (12 tegundir).

 

Við val á tegundum og uppröðun á myndflötinn naut Eggert aðstoðar náttúrufræðinga, þar á meðal formanns Hins íslenska náttúrufræðifélags, Ágústs H. Bjarnasonar grasafræðings. Ágústi var falið að hafa samband við Eggert um gerð veggspjaldsins en hann hafði þá getið sér gott orð sem listamaður, meðal annars með því að myndskreyta bókina Íslensk flóra með litmyndum, en hún kom út árið 1983 á vegum Iðunnar. Litið er á þá bók sem mikilsverðan áfanga á listrænum ferli Eggerts sem hefur í kjölfarið byggt á grasafræði í myndrænum efnistökum málverka sinna.

 

Fyrsta upplag veggspjaldsins árið 1985 var um 2000 eintök og var því mjög vel tekið. Á því  voru númer við plönturnar sem vísuðu til nafns þeirra. Ráðist var í aðra útgáfu árið 1987 og þá þriðju árið 1996. Óvíst er um stærð upplagsins 1987 en 1996 var það 2000 eintök. Tæknilegir annmarkar réðu því að bakgrunnur prentunarinnar var bláleitur í fyrstu útgáfu og þannig þekkja margir verkið auk þess sem veggspjaldið var mun minna en frumgerðin. Hér birtist frummyndin í fyrsta sinn opinberlega.

 

Eign Hins íslenska náttúrufræðifélags

Í vörslu Náttúruminjasafns Íslands frá 2014