• Juliana-Sveinsdottir-LI-778--Fra-Vestmannaeyjum-Ellidaey

Frá Vestmannaeyjum (Elliðaey)

Júlíana Sveinsdóttir 1946

Júlíana Sveinsdóttir er einn af brautryðjendum íslenskrar málaralistar og ein af fyrstu konunum hér á landi sem gerði þá list að lífsstarfi sínu. Auk þess var hún mikilvirkur listvefari og vel metinn frumkvöðull á því sviði í Danmörku, en þar var hún búsett meirihluta ævinnar og virkur þátttakandi í listalífinu. Júlíana var leitandi í list sinni fyrstu árin eftir að hún lauk námi frá Konunglega listaháskólanum í Kaupmannahöfn árið 1917. Um og upp úr 1930 má hins vegar greina mikið umbrotaskeið í list hennar og í kjölfarið fór hún að huga meira að samhljómi ljóss og lita og túlkun hennar varð mun ljóðrænni en áður. Það er einmitt þessi sterka ljóðræna tilfinning sem skapar Júlíönu sérstöðu í íslenskri landslagslist.

 

Júlíana málaði iðulega úti í náttúrunni og varði jafnan löngum tíma í að finna sér myndefni og rétta birtu. Valdi Júlíana oft þungbúið veðurfar eða rökkurbirtu sem gerir það að verkum að mörg verka hennar eru sveipuð ákveðinni dulúð. Hún nýtti sér óhikað allan litaskalann og má segja að fáir hafa nýtt sér litbrigði íslenskrar náttúru af jafn miklu næmi og hún. Fyrir verk sín hlaut Júlíana meðal annars heiðursverðlaun Eckersbergs árið 1947, eina æðstu opinberu viðurkenningu sem veitt er fyrir myndlist í Danmörku. Verðlaunin fékk hún fyrir verkið Frá Vestmannaeyjum (Elliðaey) sem hún málaði úti undir berum himni í Vestmannaeyjum árið 1946 en það sumar kom hún til Íslands eftir langa fjarveru vegna stríðsins og urðu endurfundirnir við ættjörðina mjög kærir. Sjálf segir hún að það hafi verið þetta sumar sem hún sá Vestmannaeyjar í fyrsta skipti eins og þær eru í raun og veru. Í Vestmannaeyjum voru það fyrst og fremst klettarnir, svart fjörugrjótið og hafið með sínum ótal litbrigðum sem veitti Júlíönu innblástur. Að eigin sögn voru það þó ekki bara klettar og fjöll sem hún leitaðist við að sýna í málverkum sínum, heldur fann hún í kviku hafsins samhljóm með eigin lífsbaráttu og striti annarra.

LÍ 778

Listasafn Íslands