• Stjorn_38r
  • stjórn001
  • stjórn 023
  • stjórn 71
  • stjórn88
  • stjórn 115
  • stjórn Amo
  • stjórn AMO2

Stjórn

nafn listamanns/-konu óþekkt um 1350

Til er fjöldi myndverka frá ýmsum tímum sem byggist á frásögnum Gamla testamentisins. Meðal elstu verka á Íslandi eru handritalýsingar eða myndskreytingar í handritum. Eftir að kristni var lögfest á Alþingi árið 1000 bárust bækur ritaðar á latínu til landsins og voru þýdd latínurit meðal þess fyrsta sem ritað var á íslensku. Þar á meðal var hluti Gamla testamentisins sem hefur hlotið nafnið Stjórn. Sum Stjórnarhandrit eru fagurlega lýst svo sem handritið sem hér um ræðir.

 Í handritinu eru nokkrar heilsíðuskreytingar og hér má sjá endurgerðir þeirra í upprunalegri stærð, prentaðar á bókfell. Ef myndirnar eru skoðaðar vel má sjá að einhvern tíma hefur verið skorið efst af blöðum handritsins og vantar því hluta af myndskreytingunum. Myndirnar segja sögur úr Biblíunni og tengjast þeim kafla sem er að hefjast hverju sinni. Auk stóru sögustafanna eru flestar síður handritsins skreyttar smærri upphafsstöfum við kaflaskipti. Stafirnir eru einfaldir og skýrir að lögun, hvíla á rétthyrndum, skreyttum grunni og frá honum teygja teinungar sig eftir spássíunni. Smálauf vaxa víða úr leggjum teinunganna og til endanna kvíslast þeir í smágreinar sem enda í laufblöðum. Teikningin á myndum Stjórnar er kvik og fíngerð. Stíll handritsins er hágotneskur og er það talið hafa verið gert í Benediktínaklaustrinu á Þingeyrum um miðja fjórtándu öld. Þar störfuðu ritarar og listamenn og gera má ráð fyrir því að þrír til fimm einstaklingar hafi komið að gerð þessa glæsilega verks, sem þykir geyma fegurstu íslensku handritalýsingarnar frá miðöldum.

 

AM 227 fol.


Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum