• Lbs_1040_fol

Noregskonungasögur

nafn listamanns/-konu óþekkt 1699

Teikning þessi af Haraldi I Noregskonungi, eða Haraldi hárfagra (um 850-933), er dæmi um listaverk sem varðveist hefur úr handriti sem nú er glatað. Um er að ræða þrjár myndskreyttar síður sem hafa áður verið hluti af stærra handriti en á einhverjum tímapunkti hafa þessar síður verið teknar úr því og standa nú einar og sér. Stærsta teikningin er mynd þessi af konungi. Hinar tvær minni eru skrautritaðar titilsíður hins glataða handrits sem innihélt sögur af Noregskonungum og má þar sjá að það var skrifað árið 1699. Allar eru síðurnar fagurlega unnar með sterkum litum og vönduðu handbragði og rannsókn leiddi í ljós að pappírsgerð blaðanna þriggja er sú sama. 

Sögur Noregskonunga eru varðveittar í íslenskum miðaldahandritum sem voru margendurskrifuð og varðveittust þannig fram eftir öldum. Margt bendir til þess að  þetta tiltekna handrit hafi verið skrifað í Vigur að tilhlutan Magnúsar Jónssonar digra (1637-1702), bónda og fræðimanns, en hann hafði á sínum snærum marga færa handritaskrifara. Myndin af Haraldi hárfagra minnir um margt á aðrar teikningar sem varðveist hafa og eignaðar eru Hjalta Þorsteinssyni (1665-1764) presti í Vatnsfirði og því er ekki ósennilegt að hana megi eigna honum. Þessar þrjár síður þarf aftur á móti að rannsaka mun betur til þess að hægt sé að fullyrða hvaðan þær koma og hver(jir) hafi gert þær.

Lbs 1040 fol.

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn