• 0151-SÁM-0066-is
 • 0152-SÁM-0066-is-
 • 0153-SÁM-0066-is
 • 0154-SÁM-0066-is
 • 0155-SÁM-0066-is
 • 0156-SÁM-0066-is
 • 0157-SÁM-0066-is
 • 0158-SÁM-0066-is-
 • 0159-SÁM-0066-is
 • 0160-SÁM-0066-is
 • 0161-SÁM-0066-is
 • 0162-SÁM-0066-is
 • 0163-SÁM-0066-is
 • 0164-SÁM-0066-is
 • 0165-SÁM-0066-is-
 • 0166-SÁM-0066-is

Melsteðs-Edda

Jakob Sigurðsson 1765

Ekki er varðveitt mikið af myndrænum heimildum um hvernig fólk sá fyrir sér heim hinna norrænu goða. Nokkur handrit Snorra-Eddu frá 17. og 18. öld eru þó skreytt skemmtilegum myndum og teikningum. Þeirra á meðal er hin svokallaða Melsteðs-Edda þar sem finna má sextán heilsíðumyndir ásamt textum Eddukvæða og Snorra-Eddu. Bóndinn Jakob Sigurðsson (1727-1779) skrifaði og myndskreytti handritið ásamt fjölda annarra um sína daga. Myndverk Jakobs bera vitni um ríkulegt ímyndunarafl og listfengi auk þess sem þau veita innsýn í hugmyndir fólks sem uppi var á 18. öld um hina fornu guði og önnur fyrirbæri sem sagt er frá í textanum. Melsteðs-Edda er pappírshandrit og er hver síða aðeins um 18 cm á hæð og 14 cm á breidd, eða lítið eitt minni en A5 blaðsíða.

 

Hugmynd Jakobs um hest Óðins, Sleipni, byggist á útliti íslenska hestsins að viðbættum fjórum fótum – enda er Sleipnir sagður áttfættur í textanum. Eitthvað vafðist þó fyrir Jakobi hvernig hesturinn gæti hreyft sig með alla þessa fætur og datt honum í hug að binda þá saman tvo og tvo í fjögur pör eins og sjá má. Málið vandast þegar Jakob ætlar að teikna Fenrisúlf, enda engir úlfar til á Íslandi sem fyrirmynd og útkoman því heldur furðuleg skepna. Þá má sjá einstaka túlkun Jakobs á persónu Gylfa í Gylfaginningu en í stað hins valdamikla konungs sem sagt er frá sést hann á myndinni sem hálfgerður einfeldningur.

 

SÁM 66 4to

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum