• NMI_FalkiRjupa

Hvítfálki og rjúpa

Jóhann Brandsson 1986

Hin uppstillta mynd af fálka sem hefur veitt sér rjúpu til matar endurspeglar eðlilegt ferli í náttúrunni en á sér jafnframt menningasögulegar rætur. Fálkinn og rjúpan hafa um aldir skipað stóran sess í íslenskri menningu og koma báðir fuglar alloft fyrir í þjóðtrú Íslendinga. Einna þekktust er sagan um Maríu mey og rjúpuna en þar kemur fálkinn einnig við sögu. Í þjóðsagnasafni Sigfúsar Sigfússonar er sagan á eftirfarandi hátt: „Rjúpan, sem er systir fálkans, er snotur fugl og hraðfleygur. Það er vörn hennar móti bróður sínum, fálkanum, að hún verður samlit snjónum á vetrin, en jörðinni á sumrin, og gengur honum því illa að sjá hana. Það er gömul sögn, að Guð bauð Sankti Maríu að kalla saman alla fugla og prófa hlýðni þeirra við sig, með því að leggja fyrir þá ýmsar þrautir. María bauð þeim að vaða logandi bál. Hlýddu þeir allir, nema rjúpan. Hún bar það fyrir sig, að hún sviði fiðrið af fótum sér. „ Sértu þá héðan frá loðin um fæturna,“ sagði María. „ En af því að þú óhlýðnaðist boðinu, þá skal bróðir þinn sitja um líf þitt og drepa þig sér til matar, og þó sér óvitandi, en kenna ætíð, þá kemur að hjartanu.“ Þetta varð.“

 

Fálki ( Falco rusticolus), einnig nefndur valur, er ránfugl og finnst allt í kringum Norðurheimskautið. Tegundin skiptist í nokkrar deilitegundir og sú sem verpir á Íslandi gengur undir latneska vísindaheitinu Falco rusticolus islandicus. Uppstoppaði fálkinn hér tilheyrir hins vegar deilitegund sem verpir á Grænlandi ( Falco rusticolus candicans) og kallast ýmist Grænlandsfálki, snæfálki eða hvítfálki. Hvítfálkinn er mun ljósari á lit en sá íslenski. Hvítfálkar flækjast til Íslands af og til og eru kunn um 70 tilfelli á síðustu 40 árum. Þessi hvítfálki er kvenfugl og fannst illa lemstraður í Sandgerði vorið 1986. Rjúpan ( Lagopus mutus) er grasbítur en jafnframt aðalfæða fálka.

 

  NÍ RM-9096, Náttúrufræðistofnun Íslands


Náttúruminjasafn Íslands