• Lbs_747_fol

Hjalti og Gissur ganga á fund konungs

Guðlaugur Magnússon      1871-1875  

Á Norðurlöndum gekk yfir alda trúboðs eftir að norrænir menn kynntust kristni í víkingaferðum og náði hún til Íslands á 10. öld. Ólafur Tryggvason Noregskonungur sendi hingað trúboða sína og tóku nokkrir trú og létu skírast, þeirra á meðal Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason sem sagt er frá í Njáls sögu. Á mynd í Njáluhandriti frá 19. öld sjást þeir ganga á fund konungs og er forvitnilegt að sjá hvernig teiknarinn sér fundinn fyrir sér. Ólafur var ómyrkur í máli vegna hægagangs við að kristna eyjarskeggja og lofuðu Gissur og Hjalti að liðka fyrir, fóru á Alþingi og skýrðu frá óánægju konungs. Tengsl við erlenda landshöfðingja skiptu Íslendinga miklu máli á fyrstu öldunum eftir landnám, einkum vegna nauðsynlegra viðskiptasambanda. Sagan segir að Þorgeir Ljósvetningagoði hafi verið fenginn til að fella úrskurð á Alþingi árið 1000 og að hann hafi kosið að Íslendingar skyldu taka kristni.

 

Handritið er skrifað af bræðrunum Guðlaugi og Guðmundi Magnússonum á árunum 1871-1875 og hefur að geyma ýmsar Íslendingasögur og þætti, þar á meðal Njáls sögu, Egils sögu, Þorsteins þátt Síðu-Hallssonar, Gunnlaugs sögu ormstungu og fleiri. Bræðurnir voru vinnumenn á Fellsströnd og Breiðabólsstað og skrifuðu handritið upp í hjáverkum frá daglegum störfum eins og kemur fram á titilsíðu þess. Handritið er í stóru broti og er rúmlega 750 blaðsíður að lengd og prýtt ýmsum teikningum þar sem sjá má kappa á borð við Hjalta Skeggjason og Gissur hvíta í klæðum að heldri manna hætti frá lokum 19. aldar. Guðlaugur fluttist síðar til Vesturheims og lést þar 1917. Guðmundur bjó hins vegar alla tíð á Íslandi og var lengst af bóndi að Breiðabólsstað á Fellsströnd þar sem hann lést árið 1915.

 

Lbs 747 fol.

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn