• Landshofd

Uppdrættir af brennisteinsnámum

Frederick Johnstrup 1871

Hér má sjá þrjá uppdrætti sem sýna hvar brennistein var að finna í Reykjahlíðarnámum, Kröflunámum og Fremrinámum í Þingeyjarsýslu. Uppdrættir þessir voru gerðir af Frederick Johnstrup, prófessor í steinafræði við háskólann í Kaupmannahöfn sumarið 1871 vegna fyrirhugaðs leigusamnings um námurnar við enskan kaupsýslumann, Alfred G. Lock að nafni, en hann hugðist koma á fót umfangsmikilli brennisteinsvinnslu á svæðinu. Vorið eftir, eða í apríl 1872, var síðan gengið frá samningi við hann um leigu á námunum til 50 ára.

 

Í samningnum er meðal annars vísað í þessa uppdrætti varðandi umgengnisreglur í námunum. Námuaugun, þar sem brennisteinninn fellur út, eru til dæmis táknuð með grænum punktum á uppdráttunum og ofan í þau var bannað að traðka mold, samkvæmt leigusamningnum, til að koma í veg fyrir að námurnar skemmdust. Gulu punktarnir tákna hveraaugu þar sem gufa stígur upp. Lock seldi síðan leigusamninginn áfram til ensks hlutafélags sem nefnt var The North of Iceland Sulphur Company Ltd en lítið varð úr framkvæmdum á vegum þess. Forsvarsmaður þess var sonur Locks, C. G. Warnford Lock, betur þekktur sem Brennisteins-Lock, og kom hann hingað til lands árið 1876. Félagið stóð ekki við samninginn og á árinu 1885 voru námurnar aftur teknar undir umráð landssjóðs.

 

Rannsóknarskýrsla Johnstrups um námurnar var síðan gefin út á prenti í lítilli bók sem kom út í Kaupmannahöfn árið 1886 og er þessa þrjá uppdætti einnig að finna þar: Frederick Johnstrup, Om de vulkanske Udbrud og Solfatarerne i den nordøstlige Del af Island. Kjøbenhavn 1886.

 

ÞÍ Skjalasafn Landshöfðingja, N–bréfadagbók 1883–1887, nr. N.280–86

Þjóðskjalasafn Íslands