• Sigurdur-Gudmundsson-Mountain-1980-82.

Mountain

Sigurður Guðmundsson 1980-1982

Fjall Sigurðar Guðmundssonar mætti kalla lifandi skúlptúr, sem ljósmyndin hefur fangað í varanlegt form. Listamaðurinn sjálfur er miðlægur í verkinu, sem skurðpunktur náttúru og menningar, enda sýnir lagskiptingin, á lóðréttum og láréttum ási, eins konar ferli frá náttúrulegri undirstöðu til manns sem hefur skapað sér menningarlegar afurðir: Grjót, torf, maður, skór, brauð, bækur. Uppbyggingin minnir um margt á byggingarhefð torfbæjanna en með grjót- og torfhleðslu urðu híbýli manna nánast hluti af landslaginu og daglegt amstur fólks samofið landinu. Skúlptúrinn sjálfur, fjallið, er eiginlegt og óeiginlegt mótíf í verkinu. Sem form hvílir hann á stefnumóti náttúru, manns og menningar og hann verður til sem hugmynd í gegnum tungumálið, sem titillinn lætur í ljós. Maðurinn er í senn ástæða og grundvöllur þess að fjallið er til sem hugmynd og form, það er því tilbúningur mannsins og án hans væri fjallið ekki til, rétt eins og listin sjálf.

Mountain var síðasta verk Sigurðar Guðmundssonar í ljósmyndaröð sem hann vann á árunum 1971-1982 og kallaði Situations. Ljósmyndirnar eru uppstilltir gjörningar eða lifandi skúlptúrar – ýmist svarthvítar eða í lit – þar sem listamaðurinn sjálfur leikur oftar en ekki aðalhlutverkið. Listamenn sem tengdust Flúxus og hugmyndalist á sjöunda og áttunda áratugnum notuðu gjarnan ljósmyndina til að skrásetja gjörninga og listviðburði. Í sviðsetningum Sigurðar, sem hann vann að nær öllu í leyti í Hollandi, er ljósmyndunum þó ætlað að vera hið eiginlega og endanlega verk.

LÍ 8101

Listasafn Íslands