• SZ-N-31725

Þrjár konur við Ölfusá

Sigríður Zoëga 1915

Heiðríkja einkennir mynd af þremur konum á sumarkvöldi á bökkum Ölfusár hjá Kaldaðarnesi í Flóa. Tvær þeirra standa en ein situr flötum beinum í sandinum. Þær horfa yfir spegilsléttan vatnsflötinn og njóta kvöldkyrrðarinnar. Líkt og tíðkaðist í gerð landslagmálverka er myndinni skipt upp í þrjár dýptir. Konurnar eru staðsettar utarlega í forgrunni myndflatarins. Áin breiðir úr sér og líkist frekar stöðuvatni. Handan árinnar er láglent en að baki eru fjöll í fjarska sem ná að speglast í vatninu þrátt fyrir fjarlægðina. Þessi ljóðræna landslagsmynd hefur öðlast sígilda stöðu síðan hún birtist í yfirlitsbók um líf og starf ljósmyndarans árið 2000: Sigríður Zoëga. Ljósmyndari í Reykjavík, enda fellur myndefnið að hugmyndum Íslendinga um rómantíska sýn á landið.

Þorri ljósmynda Sigríðar Zoëga eru mannamyndir teknar á ljósmyndastofu og þær voru hennar lifibrauð. Að aflokinni starfsdvöl hjá ljósmyndaranum August Sander í Þýskalandi tók Sigríður myndir á ferðum sínum um landið á árunum frá 1914-1920. Margar þeirra hafa sömu einkenni og þessi, eru rómantískar landslagsmyndir eða uppstillingar. Þær kallast á við túlkun íslenskra málara eins og Ásgríms Jónssonar og Þórarins B. Þorlákssonar á íslensku landslagi á sama tímabili. Myndin vekur einnig upp hughrif af málverkum dönsku málaranna sem kenndir eru við Skagen, til dæmis Peder Severin Krøyers af hvítklæddum konum á sjávarströnd.

SZ1-31725 Þjóðminjasafn Íslands

 

Meginmál