• Om_Jordbranden_paa_Island_i_Bls_91

Om jordbranden paa Island i aaret 1783

Sæmundur Magnússon Hólm 1784

Í byrjun júní 1783 hófst mikill eldgangur að fjallabaki norðan Síðu, oft kenndur við fjallið Laka, sem er á þessum slóðum. Gosið er kunnast með heitinu Skaftáreldar og átti eftir að standa fram í febrúar 1784. Með haustskipum bárust fréttir til Danmerkur af eldgosinu en vafalaust sumar ónákvæmari en skyldi. Einn af þeim Íslendingum sem dvöldu þar við nám, Sæmundur Magnússon Hólm, setti saman bók um atburðina með frásagnir þessar að undirstöðu og var hún prentuð á dönsku í Kaupmannahöfn 1784 og þýsk gerð hennar birtist svo litlu síðar. Báðum útgáfunum fylgja tveir uppdrættir sem Sæmundur segir að séu gerðir eftir kortum sem hann hafi áður gert á Íslandi. Kort Sæmundar eru frekar ófullkomin og þau eru ekki heldur góð heimild um framgang gossins enda byggð á lausafregnum sem bárust til Kaupmannahafnar haustið 1783. Þau gefa okkur þó hugmynd um land sem nú er horfið undir hraunbreiður Skaftárelda.

Kortin eru auðkennd með bókstöfunum A og B. A-kortið spannar svæðið frá Kúðafljóti austur að Núpsvötnum og Lómagnúpi. Því er ætlað að sýna hvernig þessar sveitir, sem síðar voru herjaðar af eldinum, litu út áður en náttúruhamfarirnar hófust. B-kortið er nokkru stærra en A og nær frá Múlakvísl austur fyrir Öræfajökul. Það á að gefa mynd af því hve mikill hluti héraðsins hvarf undir hraunstorku eldflóðsins. Gosstöðvar Skaftárelda eru ekki sýndar á kortinu og hraunelfan teygist alla leið að norðurmörkum þess. Kortið er markað upphafsstöfunum A-L og fylgja þeim skýringar einstakra efnisþátta.                                          

550 Sæm

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn