• TF-SIF_15april2010

Eyjafjallajökull

Ratsjármynd 2010

Loftmynd þessi sýnir þrjú megingosop eldgossins í Eyjafjallajökli árið 2010 sem vakti mikla athygli á sínum tíma. Öskufall var gríðarlega mikið og eyðilegging varð á bæjum í nágrenni jökulsins. Gífurlegt fjárhagstjón varð vegna röskunar á flugi um alla Evrópu. Fjölmiðlar sögðu myndina „óneitanlega minna á andlit einhverskonar forynju sem hefur brotið sér leið úr iðrum jarðar og er nú að spúa eldi og brennisteini út í andrúmsloftið.“ (Fréttablaðið 16. apríl 2010). Myndin er tekin 15. apríl 2010 kl. 17:11:45 í 17223 feta hæð, 45 km norðan við Eyjafjallajökul með 360° Elta ratsjá úr TF SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar.

Sprengigosið í Eyjafjallajökli hófst með látum 14. apríl 2010. Fljótlega var farið í eftirlitsflug yfir gosstöðvarnar og náðist þessi mynd á ratsjá flugvélar Landhelgisgæslunnar. Þar má sjá stærstu  gosgígana sem eru 200 til 500 metrar í þvermál hver. Í lok maí minnkaði gosvirknin mjög en talsvert öskufok olli óþægindum víða um land allt fram á haustið 2010.

Eyjafjallajökull er fimmti til sjötti stærsti jökull Íslands og með hærri fjöllum landsins, um 1666 m. Eyjafjöll tilheyra fjallgarði sem liggur vestur úr Mýrdalsjökli og draga fjöllin nafn sitt af því að þau standa gegnt Vestmannaeyjum. Undir Eyjafjallajökli er eldkeila, ein af fimm í landinu, sem hefur gosið fjórum sinnum síðan land byggðist, fyrst árið 920, þá 1612, 1821 og loks 2010. Skammt er í Kötlu í Mýrdalsjökli og athyglisvert að Katla virðist hafa gosið samtímis eða fljótlega í kjölfar fyrri gosa í Eyjafjallajökli. Þetta bendir sterklega til þess að samband sé á milli eldstöðvanna.

 

Birt með leyfi Landhelgisgæslu Íslands að ósk Náttúruminjasafns Íslands