• Ragna-Robertsdottir

Landslag

Ragna Róbertsdóttir 1999

Ragna Róbertsdóttir tilheyrir þeirri kynslóð listamanna sem taka hefðbundna landslagstúlkun í íslenskri listasögu til endurskoðunar. Allt frá því seint á tíunda áratugnum hefur Ragna fengist við jarðbundinn efnivið, hraun, torf eða gler sem jafnvel kemur beint úr því landslagi sem ætlað er að túlka. Birtingarmynd landslagsins – fyrirmyndarinnar – kemur fram í formi efnisins, ekki myndmálinu sem slíku. Í Hekluverkum Rögnu er ekki um að ræða myndir af eldkeilunni eins og hún hefur svo oft verið túlkuð af landslagsmálurum. Ragna gengur alla leið að hrauninu og notar það sem efnivið í verkum sínum í formi vikurs, rauðamalar eða hraungrýtis. Samruni efnis og inntaks verður einstakur innan þess þrönga ramma sem hún sníður verkum sínum.

 

Þótt list Rögnu virðist mínimalísk í framsetningu má greina persónulega þræði í inntaki verka hennar sem einkennast af nánd við landslagið og náttúruöflin. Hvað þetta áhrærir eiga þau ýmislegt sameiginlegt með verkum umhverfislistamanna sem drógu landslagið inn í sýningarrýmið á sjöunda og áttunda áratug liðinnar aldar með því að flytja þangað náttúrulegan efnivið, grjót, sprek eða jarðveg. Ragna markar verkum sínum iðulega pláss í nánu samspili við umhverfið og lætur þau kallast á við bygginguna sjálfa þar sem verkið er til sýnis. Innan rammans leyfir hún efninu að leika frjálsu en hún kastar því á límborinn flöt. Þannig minnir hún einnig á hina sérstöku hefð í íslenskri byggingarlist að steina hús með náttúruefnum, líkt og Þjóðleikhúsið hér við hlið Safnahússins sem hulið er hrafntinnumulningi.

 

LÍ 7390

Listasafn Íslands