Niður
Ris hússins er undirlagt af sjónarhorninu niður. Það kallast ágætlega á við þá hefð sem komst á meðal borgarbúa skömmu eftir að Safnahúsið var opnað árið 1909 að stíga á þar til gerðum tröppum upp í kvistgluggana til að horfa niður úr þessari hæstu byggingu Reykjavíkur. Í þessu sjónarhorni horfa íbúar Íslands á landið undir fótum sér og tjá tengsl sín við það í fjölbreyttu myndmáli. Landið er gjöfult og það hefur verið nýtt með ýmsum hætti. Það er fagurt og þess má njóta í allri sinni dýrð en þar búa líka ógnaröfl jarðhræringa og eldsumbrota. Fyrst vaknar þó ef til vill spurningin um hvernig tjá megi myndina af landinu og persónulega upplifun af því?