• Spil_Astu_Sig_Joker

Þjóðsagnaspil

Ásta Sigurðardóttir 1960–1963

Af einhverjum ástæðum varð aldrei af útgáfu spilanna sem Ásta Sigurðardóttir rithöfundur teiknaði og vann upp úr íslenskum þjóðsögum. Einungis eru því varðveittar frummyndir hennar. Teikningarnar eru gerðar í sterkum þekjulitum. Um mitt spil er nokkuð breiður skábekkur og er annar helmingurinn hvítur en hinn svartur. Milli helminganna er hringflötur og á honum er sérstakur galdrastafur á hverri sort fyrir sig: Á hjartanu er ægishjálmur, á spaðanum þórshamar, á tíglinum er ginfaxi og á laufinu kaupaloki. Hugsanlega eiga bekkirnir að tákna hvíta- og svartagaldur. Víst er að helmingurinn með svarta bekkinn er mun illilegri ásýndum. Í sögum sínum og dúkristum tefldi Ásta fram andstæðum og óhugnaður liggur í lofti. Hið sama má segja um spilin. Þar er líf og dauði, guð og fjandinn, gott og vont og merking annars er mótuð af skilningnum á hinu. Yfir þeim er dulúðugt yfirbragð galdramanna og galdrakvenna og annarra kynlegra kvista:

 

Spaðaás: Þorgeirsboli

Spaðakóngur: Sæmundur fróði − Gottskálk grimmi

Spaðadrottning: Höfðabrekku-Jóka − Straumfjarðar Halla

Spaðagosi: Galdra Loftur − Mensalder ríki

Tígulás: Flæðarmús

Tígulkóngur: Galdra-Leifi − Jón lærði

Tíguldrottning: Galdra-Þura − Bjarna-Dísa

Tígulgosi: Stígvéla-Brokkur − Sandvíkur-Glæsir

Hjartaás: Hjónagras

Hjartakóngur: Sr. Snorri á Húsafelli − Sr. Eiríkur í Vogsósum

Hjartadrottning: Galdra-Manga − Miklabæjar-Sólveig

Hjartagosi: Eiríkur góði − Djákninn á Myrká

Laufaás: Lásagras

Laufakóngur: Þormóður í Gvendareyjum − Galdra-Þorgeir

Laufadrottning: Galdra-Imba − Möðrudals-Manga

Laufagosi: Latínu-Bjarni − Háleiti-Bjarni

Jóker: Húsavíkur-Jón

Lbs 300 NF

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn