• söðull

Söðull

nafn listamanns/-konu óþekkt 1751

Söðullinn sem hér er til sýnis er meðal glæsilegustu eintaka af eldri gerð kvensöðla, svokallaður hellusöðull, en hann dregur nafn af því að vera klæddur með skreyttum látúnsþynnum. Hann er sagður hafa tilheyrt Guðrúnu dóttur Skúla Magnússonar landfógeta. Hún var fædd 1739 og hefur því verið 12 ára þegar hún eignaðist söðulinn. Hann er smíðaður úr furu, klæddur leðri og grænu vaðmáli að innan, sem fest er niður með rauðum skúfum. Við breytingar á söðlinum hafa upphafsstafir eiganda og ártal skemmst nokkuð en á afturbrík mun hafa verið hægt að greina GSD og anno 1751

 

Ævintýralegt myndefni söðulsins hefur eflaust höfðað til ungu stúlkunnar og vísar í ýmis minni og sögur, bæði í Biblíuna og fornar norrænar goðsagnir. Auk upphafsstafanna og ártalsins eru þrír englar á afturbríkinni og þar neðan við eru einhyrningar. Þar hægra megin er mynd sem sýnir Jónas spámann eftir að hvalurinn hafði spúið honum á land og er Jónas að lesa í bók og hefur blómvönd í hendi, en vinstra megin er Sigurður Fáfnisbani að drepa Fáfni. Á sveifinni er engill með tvo lúðra í munni og greinar í höndum sem bylgjast til hliðanna; blóm, fuglar, maður að skjóta tígrísdýr með boga og hugsanlega sáttmálsörkin. Framan til á sveifinni er maður með reitt sverð til að drepa pardusdýr, maður í vagni og annar með upprétta hönd til blessunar. Á kringlu frambríkurinnar eru þrír englar, sól, máni og fleira, sem sennilega vísar í einhverja frásögn. Neðan við kringluna eru ljón og utar myndir er annars vegar sýna fórn Ísaks og hins vegar brottför Lots frá Sódómu.

 

Þjms 2641

Þjóðminjasafn Íslands