• náhvalstönn

Náhvalstönn

Hvalreki við Hallsteinsnes í Austur-Barðastrandasýslu 1921  

Náhvalur, sem á latínu nefnist Monodon monoceros, eða hvalurinn með eina tönn og eitt horn, er hánorræn tegund af ætt hvíthvala sem heldur sig mest í Norður-Íshafi. Þeir eru mjög fáliðaðir og flækjast sjaldan til Íslands. Eitt helsta sérkenni náhvala er að þeir hafa aðeins eina fullvaxna tönn, skögultönn sem skagar allt að þrjá metra fram úr höfðinu. Tönnin vex vinstra megin úr efri góm í gegnum vörina og snýst í vinding til vinstri. Tönn þessi er um 230 cm löng og er úr dýri sem fannst rekið vorið 1921 við Hallsteinsnes, Austur-Barðastrandasýslu.

 

Skögultennur náhvala hafa löngum þótt miklar gersemar og verið eftirsóttar. Um tíma voru náhvalstennur ein verðmætasta útflutningsvara norrænna manna frá Grænlandi. Þær voru einnig í miklum metum hér á landi. Guðbrandur biskup Þorláksson færði til að mynda Kristjáni IV. Danakonungi náhvalstönn að gjöf árið 1621.

 

Ásókn í náhvalstennur var að hluta til af dulmögnuðum toga. Náhvalir tengjast hinum goð- og þjóðsagnakenndu einhyrningum sem á miðöldum í Evrópu var líkt við fagurskapaða hvíta hesta með eitt langt snúið horn fram úr enninu. Í augum kristinna Evrópubúa miðalda voru einhyrningar táknmynd heilagleika, heiðarleika, hreinlífis og sakleysis. Horn einhyrninga voru jafnframt talin búa yfir miklum töfra- og lækningamætti. Duft úr muldu einhyrningshorni var sagt græðandi við ýmsum kvillum, líkamlegum sem andlegum og notað til dæmis gegn magapest, flogaveiki og þunglyndi. Að auki var það talið vinna á eitruðum vökvum. Það er því að vonum að einhyrningshorn hafi verið eftirsótt en jafnframt æði torfengin og í raun ófáanleg. Þá koma skögultennur áþreifanlegra náhvala til sögunnar en það var trú sumra að þær væru horn einhyrninga.

 

NÍ RM-11369, Náttúrufræðistofnun Íslands

Náttúruminjasafn Íslands