• Johanna-K-Yngvad

Á ögurstundu

Jóhanna Kristín Yngvadóttir 1987

Verkið Á ögurstundu fær áhorfandann til að hörfa en koma síðan til baka. Myndir sem þessar hafa aðdráttarafl og vekja forvitni áhorfandans sem um leið kannar eigin tilfinningar. Djöfulleg veran hræðir stúlkuna sem æpir líkt og stúlkan á brúnni í verkinu Ópið eftir Edvard Munch. Jafnt er um mannveruna hægra megin á myndfletinum sem virðist missa fótanna. Hvít hauskúpan, tákn dauðans, skapar andstæðu við dökka liti verksins. Liturinn er dreginn á léreftið með kraftmiklum strokum sem skapa hreyfingu sem líkja má við hvirfilbyl sem verurnar sogast upp með. Dökkir litirnir hafa seiðmögnuð áhrif í grængulri birtunni.

Jóhanna Kristín sótti oftast myndefni  í eigin reynsluheim og minningar og notaði jafnvel fjölskyldualbúmin sem innblástur. Fyrir henni var myndlist dauðans alvara. Listakonan lést fyrir aldur fram en var afkastamikil þá tæpu tvo áratugi sem hún starfaði að list sinni og er verk hennar að finna á öllum helstu listasöfnum landsins. Jóhanna Kristín útskrifaðist frá grafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1976 og sótti sér framhaldsmenntun til Hollands næstu fjögur árin. Segja má að hún hafi stokkið fram á sviðið sem fullmótaður listamaður árið 1983 á fyrstu einkasýningu sinni í Nýlistasafninu. Verk hennar fengu frábæra dóma og þótti hér vera komin listamaður sem tjáði tilfinningar sínar með áhrifamiklum hætti og var verðugur fulltrúi nýja expressjónismans sem rekja mátti til Þýskalands og Ítalíu á ofanverðum sjöunda áratugnum.

LÍ 5602

Listasafn Íslands