• Eyborg-Gudmundsdottir,Titrandi-strengir,L

Titrandi strengir

Eyborg Guðmundsdóttir 1974

Ferill Eyborgar Guðmundsdóttur spannaði aðeins fimmtán ár en hún náði engu að síður að þróa persónulegt myndmál, fíngert og fágað, sem einkenndist af einföldum formum og sjónarspili í ætt við op-list. Slitróttur strengleikur í samspili við einföld, sterk form og liti einkennir mörg verka Eyborgar eins og sjá má í málverkinu Titrandi strengir. Strengirnir eru dregnir hárfínum línum á léreftið og kalla fram hughrif viðkvæmni um leið og sterkir litir og ákveðin form eru til vitnis um listrænt öryggi. Miklar andstæður á myndfletinum, leikandi línur og vídd á móti þungum eintóna formum eru til vitnis um dirfsku Eyborgar í málverkinu.

 

Á árunum 1959-1963 lagði Eyborg stund á listnám í París en líkaði það ekki og hætti fljótlega. Upp frá því kynnti hún sér sjálf strauma og stefnur í myndlist en abstraktlist átti hug hennar frá upphafi. Hún kynntist op-listamanninum Victor Vasarely og naut tilsagnar hans. Í París dvaldi Eyborg í fimm ár. Hún tók þátt í sýningum alþjóðlegs hóps listamanna er máluðu eins og hún geómetrískar abstraktmyndir. Hópurinn nefndist Groupe Mesure og tók Eyborg þátt í sýningum hans víða um lönd.

 

Málverkið Titrandi strengir var á haustsýningu Félags íslenskra myndlistarmanna í Norræna húsinu árið 1975. Eyborg hafði þá þegar markað sér sérstöðu innan abstraktlistar á Íslandi með verkum sem byggðu á frumeigindum myndlistar, formum, lit og línu, út frá virkni þeirra innbyrðis og ertingu á sjóntaugarnar. Eyborg var ein fárra listamanna hér á landi sem hélt áfram rannsóknum á möguleikum abstrakt geómetríunnar og færði strangflatarmálverkið yfir á næsta stig.

 

LÍ 3824

Listasafn Íslands