Örlagateningurinn

Finnur Jónsson 1925

Það er forvitnilegt að skoða uppbyggingu verksins Örlagateningurinn. Þar leikur listamaðurinn sér að grunnformunum í ólíkum útfærslum, hring, þríhyrningi og ferningi. Tvívídd er blandað saman við þrívídd, sumir fletir eru alveg sléttir og flatir á meðan aðrir bera með sér blekkingu þrívíddar með skyggingu og einfaldri fjarvídd. Línur eru dregnar markvisst lárétt og lóðrétt eða á ská. Uppistaða litanotkunar er frumlitirnir gulur, rauður og blár. Þá notar listamaðurinn gyllingu til þess að túlka kraft ljóss og birtu sem er undirstrikuð með skuggavarpi. Rými málverksins er óráðið, það lýtur í raun aðeins eigin lögmálum. Hið eina sem virðist eiga sér hlutbundna fyrirmynd er rauði teningurinn sem sýnir „einn“ – í raun er þó aðeins um samspil fernings og hrings að ræða. Verkið ber hinn merkingarþrungna titil sem vísar einmitt til teningsins. Yfir verkinu öllu hvílir óútskýrð dulúð þrátt fyrir hina augljósu uppbyggingu.

Finnur Jónsson nam ungur teikningu og síðan gullsmíði hér á landi en loks hélt hann utan til listnáms. Hann var fyrst í Kaupmannahöfn en hélt til Þýskalands árið 1921, til Berlínar í upphafi en síðan til Dresden. Þar stundaði hann nám til 1925 en á þessum árum var Dresden leiðandi borg í menningarlífi Þýskalands. Í upphafi nam Finnur við útlendingadeild Fagurlistaskólans þar sem Oskar Kokoschka, einn helsti expressjónisti þessa tíma, var einn af kennurum hans. Finnur var síðar nemandi við einkaskólann Der Weg. Kúbismi, expressjónismi, súprematismi og konstrúktívismi svifu yfir vötnum í Dresden á þriðja áratugnum og Finnur málaði nokkur verk með sterkum vísunum til þessara  strauma og stefna, Örlagateningurinn er eitt þeirra.

LÍ 4784

Listasafn Íslands