• Lbs_143_8vo,_0013v

Galdrakver

nafn listamanns/-konu óþekkt 1670

Galdrakverið er frá því um 1670, telur 27 blöð og á því er ein rithönd. Það er eitt fárra galdrahandrita sem til eru varðveitt frá galdraöldinni (17. öld) en flest þeirra urðu eldi að bráð á sínum tíma. Íslensk galdrahandrit á skinni má telja á fingrum annarrar handar og að auki er þetta eitt yngsta skinnhandrit sem varðveist hefur. Handritið er að mestu leyti ritað á íslensku en í því bregður víða fyrir latínu, grísku og jafnvel hebresku.

 

Í galdrakverinu er að finna margs konar varnarráð gegn illum öflum þessa og annars heims. Handritið inniheldur ýmsa galdrastafi sem teikna átti upp með sérstökum aðferðum til að verjast ýmsum öflum, særingum og bænum til hjálpar í hvers kyns vanda, himnabréf sem talin voru hafa fallið af himnum ofan og geta varnað mönnum frá ýmsu illu, auk blóðstemmna, þ.e. sérstakra kvæða sem fara átti með til varnar blóðmissi og voru mikið notuð fyrr á öldum.

                                                         

Þekktasti galdrastafurinn er án efa ægishjálmur en í handritinu er sennilega að finna elstu varðveittu myndina af þessum galdrastaf. Í ritinu er þó ekki að finna neinar galdrarúnir þar sem handritið inniheldur eingöngu hvítagaldur, en rúnir voru löngum taldar koma frá djöflinum og tengjast þar með svartagaldri.

 

Lbs 143 8vo

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn