• 01_Rtk.32.13-11

Vefnaðarprufur

1750-1800

Sýnishorn af innfluttum vefnaðarvörum varpa ljósi á þá fjölbreytni sem í boði var í saumaskap og handavinnu á sínum tíma. Þau gefa til kynna töluvert litríkara og skrautlegra úrval til heimilisprýði og klæðagerðar en ætla mætti á fyrri öldum. Sýnishornin sem hér má sjá eru frá verslunum danskra kaupmanna á Íslandi á seinni hluta 18. aldar. Vaðmál var unnið innanlands til allra helstu þarfa landsmanna, en einnig voru flutt inn margvísleg ullarefni, léreft og bómullarefni.

Danskir kaupmenn fluttu inn ýmsa vefnaðarvöru til Íslands á tímum einokunarverslunarinnar á 17. og 18. öld. Kaupmenn versluðu á um 22-25 höfnum víðs vegar um landið, byggðu þar verslunarhús og skip þeirra voru helstu samgöngutæki landsmanna til og frá landinu. Sýnishornin hafa varðveist vegna þess að sýslumenn höfðu það verkefni að kanna gæði efnanna og verðlag í öllum höfnum landsins og senda skýrslur til stjórnarskrifstofanna í Kaupmannahöfn. Dýrustu ullarefnin voru tíu sinnum dýrari en vaðmálið og mest notuð í sparifatnað. Ódýrasta hörléreftið var hins vegar á svipuðu verði og vaðmálið, eða um fimm fiskar fyrir hverja alin efnis. Einnig var mögulegt að sérpanta bryddingar, snúrur, tölur og annað sértækt til klæðagerðar og var það nokkuð tíðkað bæði á 17. og 18. öld. Einstaka maður sérpantaði einnig hárkollur og leðurstígvél. Allt þetta fluttu einokunarkaupmenn inn fyrir landsmenn.

Þegar vefsmiðjur Innréttinganna voru stofnaðar um miðja 18. öld, var farið að framleiða mörg af þessum efnum sem flutt höfðu verið inn til landsins og sýnishorn eru til af. Bæði voru framleidd þæfð einlit ullarefni, mynstruð, blómótt og röndótt ullar- og léreftsefni, auk þess sem hör var spunninn hér á landi til þeirrar framleiðslu. Verið var að flytja framleiðslu á þessari neysluvöru inn til landsins og með því átti að minnka innflutning. Vefsmiðjurnar störfuðu til aldamótanna 1800.

 

ÞÍ . Rentukammer 1928-11 B-B01

Þjóðskjalasafn Íslands