• Ólöf Nordal

Vaxmyndasafn ‒ Dóttir og faðir

Ólöf Nordal 2010

Það er eitthvað sem ekki stemmir í ljósmynd Ólafar Nordal af dóttur og föður. Dóttirin virðist vera mun eldri en um leið líflegri en faðirinn sem situr stífur í stól með glansandi og slétta húð. Af hverju er faðirinn svona ungur og undarlegur? Ef að er gáð sést að faðirinn er vaxmynd sem er varðveitt í geymslum Þjóðminjasafns Íslands og það gerir dóttur hans mögulegt að standa við hlið föður síns sem fullorðin kona, löngu eftir að hann lést. Kveikjan að þessu stefnumóti feðginanna er gömul sögn um mann sem var á ferðalagi í fjallendi og gengur þar fram á lík ungs manns sem hafði varðveist í ís í áratugi. Þar sem hann virðir fyrir sér líkið gerir hann sér grein fyrir því að þetta er faðir hans sem fórst þegar hann var sjálfur í móðurkviði. Þannig hittast þeir í fyrsta sinn, faðirinn rúmlega tvítugur og sonurinn fast að sjötugu, nokkuð sem stangast á við öll náttúrulögmál.

 

Þó að vaxmyndir séu aðeins eftirmyndir og geri raunveruleg samskipti ekki möguleg hefur heimsókn í vaxmyndasafn með myndum af frægu fólki lengi verið vinsæl afþreying víða um lönd. Íslendingar áttu þess kost á árunum 1951-1971 að skoða 19 þjóðþekkta Íslendinga og 15 sögufræga útlendinga sem vaxmyndir í Þjóðminjasafni Íslands. Íslenska ríkið fékk þessar vaxmyndir að gjöf frá fjölskyldu sjómanns sem lést ungur af slysförum og var safnið gert í minningu hans. Vaxmyndina af honum má einnig sjá hér á sýningunni.

 

LÍ 8641

Listasafn Íslands