• Geirfugl

Geirfugl

fyrsti kjörgripur sjónarhorna

Geirfugl er útdauð tegund af ætt svartfugla,
en fyrir um þúsund árum var hann algengur
varpfugl á útskerjum við norðanvert Atlantshaf.
Geirfuglar voru eftirsótt bráð. Þeir voru stórir,
feitir og matarmiklir og vó hver fugl um 5 kg.
Fuglarnir voru ófleygir og hægir til gangs,
og því auðvelt að fanga þá á landi.
Ætla má að fljótt hafi gengið á geirfuglastofna
við landnám Evrópumanna á Íslandi og norðausturströnd
Ameríku. Heimildir benda þó til
að geirfugla hafi enn verið að finna í nokkrum
mæli við Ísland á 17. öld, en um og eftir miðja
18. öld virðast þeir orðnir fremur sjaldséðir.
Geirfuglinn sem hér er til sýnis er eign íslensku
þjóðarinnar og var keyptur á uppboði í London
árið 1971 fyrir söfnunarfé. Fyrir fuglinn var
greitt andvirði þriggja herbergja íbúðar.
Þetta er eini geirfuglinn sem til er á Íslandi og
er hann varðveittur á Náttúrufræðistofnun
Íslands ásamt einu geirfuglseggi. Fuglinn
var líklega veiddur árið 1821 við Hólmsberg á
Miðnesi. Talið er að síðustu tveir geirfuglarnir
hafi verið drepnir í Eldey undan Reykjanesi
3. júní 1844. Þar með varð tegundin útdauð.
Aðeins um 80 geirfuglar og 75 geirfuglsegg
eru til í söfnum erlendis og eru flestir gripirnir
frá Íslandi.
Útrýming geirfuglsins er svartur blettur
í sögu mannkyns. Hafa verður í huga að
vitneskja og þekking um náttúru og umhverfi
var takmarkaðri þá en nú. Af þessum atburði
má hins vegar draga mikilvægan lærdóm um
samskipti manna og umgengni við náttúruna.
„Saga geirfuglsins á að kenna okkur að fara
varlega með þá fugla, sem er að fækka að tölu
hjer á landi, t.d. haförn, skúm o.fl., og minnast
þess, að þeim arfi í fuglum, sem menn hafa tekið
við frá fyrri kynslóðum, á að skila aftur til
eftirkomendanna.“

 

Geirfuglinn var fyrsti kjörgripur Sjónarhorna frá 18.4.2015 - 18.4.2016. Samstarfsverkefni Náttúruminjasafns Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands.

 

 

 

 

Heimild:

Peter Nielsen. 1925.
Skýrsla um Hið íslenska náttúrufræðifélag
1923 – 1924.