• Vaxmynd-02

Vaxmynd af Óskari Theódóri Óskarssyni

Richard Lee um 1950

Vaxmynd-02 Óskar Theodór Ottesen Óskarsson fórst með línuveiðaranum Jarlinum í september 1941, á leið frá Englandi til Íslands. Theodór var 23ja ára gamall, sonur Óskars Halldórssonar, eiganda Jarlsins. Aldrei fannst neitt á reki úr skipinu. Faðirinn, hinn mikli útgerðarmaður, ritaði í dagbók sína hógværar og lágstemmdar færslur um hvarf Jarlsins í djúpið. En hann syrgði og grét son sinn sárt.

Þeir feðgar höfðu lengi deilt áhuga um að koma upp vaxmyndasafni á Íslandi. Faðirinn réðst í það tímafreka og kostnaðarsama verkefni að láta útbúa slíkt safn. Til gerðar vaxmyndanna var ráðinn Richard Lee, enskur myndhöggvari sem lært hafði list sína í Madame Tussaud safninu í London. Ekkert var til sparað og tíu árum síðar var safnið tilbúið. Það samanstóð af þekktum einstaklingum, íslenskum og erlendum, auk myndar af Óskari Theodóri. Vátryggingarfé og arfi Óskars Theodórs var varið til gerðar vaxmyndanna og faðirinn og eftirlifandi börn hans gáfu íslenska ríkinu safnið í minningu sonar og bróður sem hvarf í hafið.

Listamanninum þótti hafa tekist vel til. Myndirnar voru nákvæmar eftirlíkingar fyrirmynda sinna og fatnaður þeirra jafnvel hafður eins nálægt hinu raunverulega og mögulegt var. Gerð myndarinnar af Óskari Theodóri reyndist þó flóknari en flestra hinna, þar sem einungis voru til ein eða tvær ljósmyndir fyrir listamanninn að vinna eftir. Það gekk ekki þrautalaust að finna safninu húsnæði en þann 14. júlí 1951 var sýning á vaxmyndunum opnuð í Þjóðminjasafni Íslands. Ætlunin var að hún stæði þar einungis í nokkra daga. En safnið naut mikilla vinsælda og því fór svo að sýningin stóð uppi til 1971.

Þjms ónúmerað

Þjóðminjasafn Íslands