• TrG-95

Dagleg störf ársins hring

nafn listamanns/-konu óþekkt 1800-1850

Hér er um að ræða myndablað eða nokkurs konar almanak sem sýnir helstu störf fólks til sveita á síðari hluta 19. aldar. Myndirnar eru teiknaðar á pappír og síðan málaðar, en samtals eru myndfletirnir 48 eða fjórir fyrir hvern mánuð. Vinnuárið er rakið frá janúar til desember og byrjað á ullarvinnu en endað á að kýr er teymd, sennilega til að leiða hana undir naut. Ekki er vitað um höfund almanaksins en í Þjóðminjasafni eru varðveitt stök rifrildi úr sams konar teikningum, augljóslega eftir sama teiknara.

 

Það vekur sérstaka eftirtekt hve mörg smáatriði eru á myndunum og hversu vel höfundurinn þekkir til lifnaðarhátta í sveit. Ekki eru aðeins nákvæmar myndir sem sýna búshluti og ýmis verkfæri heldur einnig hvernig menn báru sig að við verkin. Hér má nefna ullarvinnu, mjaltir, kolagerð, grasaferð, heyskap, smölun, slátrun, mótekju, selveiðar, kornmölun og járnsmíði. Það kemur nokkuð á óvart að sjá nakta karlmenn á sundi og fólk á skautum og skíðum, en þessar íþróttir voru sjaldgæfar fram á 20. öld. Ein mynd fyrir desember sýnir rjúpnaveiðar með snörum og standa tveir karlar með langt band á milli sín, með þremur áföstum lykkjum. Ekki er notuð fuglastöng, eins og algengt var, og er því um merkilega heimild að ræða. Nokkuð torræð er mynd fyrir október þar sem tveir karlar virðast halda í naut en hún mun sýna slátrun með svokölluðu svæfingarjárni sem stungið var í hnakka dýrsins við banakringluna. Athygli vekja ennfremur taðkvísl og klára í maí sem hafðar voru til að mylja húsdýraáburðinn áður en honum var dreift á túnið. Almanakið er skemmtileg heimild um gamla sveitasamfélagið og minnir um sumt á gömul norræn almanök. 

 

Þjms TrG-95

Þjóðminjasafn Íslands

Meginmál