• grenjaðarstaðir

Prestsþjónustubækur

Grenjaðarstaðarsókn 1742-1994

Prestsþjónustubækur þær sem hér má sjá spanna 250 ár, 1742–1992. Þær eru úr einni og sömu sókninni, Grenjaðarstað í Aðaldal, sem var eftirsótt brauð og skjalasafn þess prestakalls er mikið að vöxtum. Í bækurnar er lífshlaup fólks í sókninni skráð í grófum dráttum: Skírn, ferming, gifting þegar svo ber undir, og loks dauði og greftrun. Sambærilegar bækur eru varðveittar úr flestum sóknum landsins og er enn verið að færa í þær upplýsingar. Þessi gögn má nota  til að rekja ættir fólks og verustaði en einnig er unnt að vinna félagsfræðilegar rannsóknir út frá þeim og skrá sögu viðkomandi kirkjustaðar.

Heimildir frá miðöldum um kirkjur og kirkjustaði lúta einkum að eignum þeirra og ítökum og eru eigna- og réttindaskjöl elstu skjöl í söfnum einstakra kirkna. Þegar kom fram á 18. öld jókst skráningarskylda presta mjög og varð til mikið lagaverk um skyldur presta á árunum 1743–1746. Þá var prestum skipað að færa prestsþjónustubækur, þ.e. skrár um prestsverk, og sóknarmannatöl, öðru nafni húsvitjunarbækur, en gert var ráð fyrir að prestur húsvitjaði á hverjum bæ árlega til að fylgjast með kristnihaldi og fræðslu ungmenna á bænum. Eru þessir tveir flokkar bóka  kallaðir kirkjubækur en í skjalasöfnum kirknanna eru fleiri skjalaflokkar, m.a. bréfabækur og endurritabækur, en í þær eru færð innkomin bréf til prestsins, vanalega frá prófasti eða biskupi. Einnig má nefna eignaskjalabækur, bækur um Möllers lestrarfélag og veðurbækur sem nokkrir prestar héldu.

ÞÍ Kirknasafn. Grenjaðarstaður. BA/1  - BA/9 .

Þjóðskjalasafn Íslands