Feimin stelpa

Þorbjörg Pálsdóttir 1967

Feimna stelpan sem stendur ein síns liðs og snýr baki í heiminn er verk Þorbjargar Pálsdóttur. Stelpan er steypt í brons til að standast tímans tönn en Þorbjörg mótaði upphaflega verkið með vírneti sem hún þakti með gifsbindum. Þá aðferð þróaði hún um miðjan sjöunda áratuginn og gerði það henni kleift að móta mannslíkama án allra persónueinkenna eða smáatriða en nær þó að fanga bæði líkamstjáningu og tilfinningar. Sorg, angist og einmanaleiki eru tilfinningar sem Þorbjörg fékkst iðulega við í verkum sínum, en þar má líka sjá mikla gleði, börn að leik og fólk í dansi. Þorbjörg mótaði yfirleitt verk sín beint í vírnet án þess að gera skissur og þakti ýmist með gifsbindum, asbesti eða pólýester. Verkin eru flest í örlítilli yfirstærð en verða þó aldrei yfirþyrmandi, enda eru persónurnar ekki á stalli eins og Ingólfur Arnarson á Arnarhóli, heldur standa þær jafnfætis áhorfandanum eða sitja flötum beinum á gólfinu. Þorbjörg var ein fárra listamanna hér á landi um og upp úr 1970 sem nýtti þrívíða miðla til að gera mannamyndir og fást við sammannlegar tilfinningar. Ef vel er að gáð sést að líkami stelpunnar er íhvolfur og innantómur og líkamsstaða hennar tjáir greinilega vanlíðan. Heiti verksins kemur því ekki á óvart því feimni fylgir iðulega óframfærni og óöryggi, tilfinningar sem margir kannast við en getur verið erfitt að túlka. 

LÍ 7264

Listasafn Íslands