• Biblia_Bindi_1_Bls_461_Gudbrandsbiblia.

Guðbrandsbiblía

Guðbrandur Þorláksson, prentuð á Hólum í Hjaltadal 1584

Í Guðbrandsbiblíu er að finna bókahnúta tveggja ólíkra móta sem birtast á víxl við lok hvers kafla. Skreyti, líkt og rósabekkir og bókahnútar, var gjarnan hluti af prentverkum fyrri tíma sem mikill metnaður var lagður í. Það var sjónrænt framhald teiknaðra lýsinga í handritum frá því fyrir tíma prentlistarinnar sem byggðu á fléttum og teinungum af ýmsu tagi.

 

Líkur hafa verið leiddar að því að Guðbrandur Þorláksson biskup hafi sjálfur skorið hnúta og annað skraut í biblíunni enda vitað að hann var hagur maður og listrænn. Tæplega þrjátíu myndir er að finna  í Guðbrandsbiblíu og þar að auki eru voldugar titilsíður í bókinni. Var þetta í fyrsta sinni sem myndir birtust á bók sem prentuð var hér á landi. Lengi var því haldið fram að Guðbrandur biskup hefði skorið allar myndirnar en komið hefur í ljós að sumar myndirnar finnast einnig í þýskum biblíuprentunum. Þaðan munu myndamótin hafa verið fengin til láns eða kaups. 

 

Guðbrandsbiblía er fyrsta íslenska heildarþýðingin á biblíunni. Guðbrandur lauk við þýðinguna árið 1584 og studdist við eldri þýðingar að svo miklu leyti sem til voru. Sagt er að sjö manns hafi unnið við prentunina á bókinni og það hafi tekið tvö ár að prenta 500 eintök. Bókin var dýr og kostaði 2–3 kýrverð, allt eftir því hve ríkur kaupandinn var. Til að fjármagna prentunina átti hver kirkja að gefa einn ríkisdal, auk þess sem konungurinn gaf umtalsverða fjármuni til verksins. Útgáfa Guðbrandsbiblíu átti ríkan þátt í varðveislu íslenskrar tungu og menningar. Þá var hún ein af fáum uppsprettum myndefnis sem barst um landið á sínum tíma og mótaði þannig myndlæsi þjóðarinnar.

 

 

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn

Lbs_Fol_220.51_Bib