• LI_5696

Vísirósir

Bjarni H. Þórarinsson 1994

Vísirósir Bjarna H. Þórarinssonar eru fjölmargar. Þar blandar hann saman hringlaga mandöluformi og ritun svo kallaðra lágmarkspara, minnstu merkingarbæru hljóða sem hægt er að stafsetja. Hann sér blekteikningar sínar sem skilningstré, sem hundruðum saman myndi sérstaka og hánorræna heima. Þannig vísar listamaðurinn til Yggdrasils, lífsins trés, þar sem Óðinn lauk upp leyndarmáli rúnaletursins, lyklinum að ritlistinni. Sjónháttur Bjarna, uppgötvun sem hann segir liggja til grundvallar Vísirósunum, varð til sumarið 1988 með eftirfarandi vísu:

 

Oss í té

lét í bé.

Gyðju sé

síðar fé.

 

Auðkenni sjónháttarins kallar Bjarni bendu og afurðirnar benduvísifræði. Hann segir að heitið hafi komið í hug sér áreynslulaust og sannast sagna er erfitt að finna heppilegra hugtak en bendu til að lýsa teinungum, fléttum eða lífrænum vafningum. Vísirósirnar eru samsettar úr tölusettu safni orða með sömu endingu sem Bjarni kallar lykla og birtast þeir í fætinum eða stilknum undir rósinni. Sum tölusettu orðin eru þegar í notkun meðan önnur bíða betri tíma. Dulræð formgerð Vísirósanna vitnar um tilraunir Bjarna til að endurreisa horfna heimsmynd þar sem orð, teikning og tákn falla saman í eina heild.

 

LÍ 5694, LÍ 5695, LÍ 5696, LÍ 5697, LÍ5698

Listasafn Íslands