• Lbs_937_8vo,_0057r

Ritgerð; Ísland

Sölvi Helgason 1850

Yfir hundrað myndir hafa varðveist eftir Sölva Helgason. Verk hans eru skrautleg og fagurlega unnin, jurtavafningar, skrautstafir og mannamyndir. Auk myndverka skrifaði hann fjölda kvæða, sagna og ritgerða. Hér er um að ræða síðu úr ritgerðarbroti, mest landfræðilegs efnis ásamt teikningum. Handritið inniheldur tuttugu og eina mynd, margar með texta á bakhlið, þar af fjórar mannamyndir og þrjár stafamyndir sem Sölvi hefur gert um 1850. Myndirnar eru dregnar fínum línum og málaðar ýmsum litum sem má furðu sæta miðað við þær aðstæður sem þær voru unnar við. Þar gætir innra samræmis vegna endurtekningar og speglunar sem kallast á við handritaskreyti og mynsturgerð fyrri tíma. Um leið er handbragð Sölva einstakt og óvenjulegt.

 

Sölvi er einn þekktasti alþýðulistamaður og flakkari Íslands og hafa spunnist um hann ýmsar sögur. Hann bætti oft nöfnum við sitt eigið sem honum þóttu viðeigandi og þar má finna Sólon Íslandus sem lengi hefur loðað við hann. Hann var fæddur árið 1820 í Skagafirði en missti foreldra sína ungur. Sem barn var hann vistaður á ýmsum bæjum og lagðist svo á flakk um 16 ára aldurinn. Sölvi baðst gjarnan gistingar og greiða á bæjum og launaði oft greiðann með mynd þar sem húsráðendur voru sýndir umluktir blómskrúði. Þá liggja einnig eftir hann fjölmargar skopmyndir. Árið 1843 var Sölvi handtekinn fyrir að vera með falsaðan reisupassa og hlaut tveimur árum síðar dóm fyrir brot sitt. Reisupassi Sölva er til í mörgum uppskriftum. Um ævina hlaut hann oftar dóma og þá yfirleitt fyrir flakk og þjófnað. Fyrir brotin var hann hýddur og loks dæmdur til þriggja ára betrunarvistar í Kaupmannahöfn. Sölvi lést 27. nóvember 1895.

 

Lbs_937_8vo

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn