• AM_350_Skardsbok

Skarðsbók Jónsbókar

nafn listamanns/-konu óþekkt 1363

Skarðsbók

Jónsbókar þykir bera af íslenskum handritum að fegurð og glæsileika. Handritið er ríkulega skreytt og fallega skrifað í tvo dálka, með breiðum spássíum. Síður þess eru úr skinni, alls 157 blöð.  Það prýða fimmtán lýstir sögustafir og teygja leggir þeirra sig eftir endilöngum textadálkum; að auki er nánast hver upphafsstafur fagurlega gerður og fjölbreytileg mannsandlit dregin í marga þeirra. Eitt af því sem einkennir skreytingar í Skarðsbók er rautt M-laga flúr umhverfis myndskreytingarnar sem og á spássíum bókarinnar.

 

Undir lok handritsins kemur fram að skrifarinn var að störfum árið 1363 og er svo nákvæm tímasetning fáséð í íslenskum miðaldahandritum. Ekki er listamaðurinn þó nefndur á nafn fremur en tíðkaðist annars staðar á þessum tíma. Nokkur handrit eru til með hendi sama skrifara og munu vera gerð í Helgafellsklaustri á Snæfellsnesi. Þetta handrit Jónsbókar er kennt við Skarð á Skarðsströnd en þaðan barst það til Kaupmannahafnar þar sem Árni Magnússon fékk það að gjöf. Sagan segir að gefandinn hafi talið gjöfina tryggja stuðning Árna í tilaunum sínum við að næla sér í embætti biskups í Skálholti. Það varð þó ekki. Handritið var varðveitt í Kaupmannahöfn til ársins 1975 þegar það kom aftur heim til Íslands.

 

AM 350 fol.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum