Um sjónarhorn

ferðalag um íslenskan myndheim

Sýningin Sjónarhorn er ferðalag um íslenskan myndheim fyrr og nú. Í sjö álmum Safnahússins við Hverfisgötu eru jafn mörg sjónarhorn sem tengja saman ólík listaverk og áhugaverða muni, þvert á efni og tímabil. 

Sýningin í Safnahúsinu er samstarfsverkefni
Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og Þjóðskjalasafns Íslands.

Vefleiðsögn

Sérsýning

geirfugl † pinguinus impennis

aldauði tegundar – síðustu sýnin

Sérsýning 16.6.2016 - 16.6.2017 

Samstarfsverkefni Ólafar Nordal og Náttúru-minjasafns Íslands í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Fimmtudaginn 16. júní n.k. kl. 15:30 verður opnuð sérsýning um geirfuglinn í Safnahúsinu við Hverfisgötu, en í sérsýningarrými hússins skiptast á sýningar á vegum þeirra sex stofnana sem standa að sýningunni Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim

Geirfugl er útdauð tegund, en talið er að síðustu tveir geirfuglarnir á jörðu hafi verið drepnir í Eldey undan Reykjanesi í júní árið 1844. Fuglarnir voru sendir til Háskólans í Kaupmannahöfn og þar eru líffæri og innyfli fuglanna enn varðveitt í 11 glerkrukkum í Náttúrufræðisafni Danmerkur. Ekki er vitað með vissu hvar hamir fuglanna eru niður komnir.

GeirfuglÁ sýningunni gefur að líta uppstoppaðan geirfugl sem keyptur var 1971, uppdrátt af Geirfuglaskeri frá því um 1770 sem sýnir veiðar á geirfugli og fleiri svartfuglum, og ný verk eftir Ólöfu Nordal: Ellefu ljósmyndir af líffærum og innyflum síðustu geirfuglanna tveggja eins og þau eru varðveitt í Náttúrufræðisafni Danmerkur, frásögn af drápi síðustu geirfuglanna í Eldey og myndskeið sem sýnir veiðar á fugli í Vestmannaeyjum.


Sérsýningunni um geirfuglinn er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi ábyrgrar og siðlegrar umgengni við undur og auðlindir náttúrunnar. Útrýming geirfuglsins er svartur blettur í sögu mannkyns og þar eiga Íslendingar sinn þátt. Hafa verður í huga að vitneskja og þekking á náttúru og umhverfi var takmarkaðri þá en nú. Samt sem áður eiga núlifandi ættingjar geirfuglsins, haftyrðill, stuttnefja og fleiri svartfuglar, í vök að verjast vegna veiða og loftslagshlýnunar. Sú staða vekur upp spurningar um hvað við höfum lært af fyrri mistökum. 

Sýningin verður opnuð fimmtudaginn 16. júní, á stofndegi Hins íslenska náttúrufræðifélags (1889) sem stofnað var í þeim tilgangi að koma upp náttúruminjasafni í Reykjavík. Félagið rak m.a. sýningarsal í Safnahúsinu við Hverfisgötu á tímabilinu 1909–1947, en 1947 færði félagið ríkinu safnið að gjöf ásamt byggingarsjóði. Náttúruminjasafn Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands eru afsprengi þessa félagsskapar. Sýningin stendur í eitt ár.

 

Um Ólöfu Nordal    

Ólöf Nordal býr og starfar í Reykjavík. Hún nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk meistaraprófi frá Cranbrook Academy of Art í Michigan og MFA frá höggmyndadeild Yale Háskólans í New Haven, Connecticut. 

Í ljósmyndum sínum og skúlptúrum leikur Ólöf sér gjarnan með hugmyndafræði söfnunar, framsetningu á sýnum og það afskræmda sem fellur utan flokkunarkerfa. Verkin eru iðulega sprottin úr heimi þjóðsagna og þjóðtrúar sem Ólöf notar til að rannsaka og skoða þær vísindalegu aðferðir sem beitt er á náttúruna til að viðhalda henni, varðveita hana og skrá. 

Ólöf er höfundur ýmissa útilistaverka og minnisvarða á opinberum vettvangi og má þar nefna Geirfuglinn í Skerjafirði, Bríetarbrekku, minnisvarða um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur,  Vitid ér enn – eda hvat? í Alþingishúsinu, og umhverfislistaverkið Þúfu sem stendur við Reykjavíkurhöfn. Hún hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar, þar með talið úr Höggmyndasjóði Richard Serra frá Listasafni Íslands.

Um Náttúruminjasafn Íslands

Náttúruminjasafn Íslands er ein sex samstarfsstofnana sem tekur þátt í sýningunni Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim og er það fyrsta sýningin sem safnið tekur þátt í frá stofnun 2007. Forstöðumaður safnsins er dr. Hilmar J. Malmquist.

Um Sjónarhorn
Sýningin Sjónarhorn var opnuð í apríl 2015. Sýningin er ferðalag um íslenskan myndheim fyrr og nú, en í sjö álmum Safnahússins við Hverfisgötu eru jafn mörg sjónarhorn sem tengja saman ólík listaverk og áhugaverða muni, þvert á efni og tímabil. Sýningin í Safnahúsinu er samstarfsverkefni Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og Þjóðskjalasafns Íslands.

Fyrri sérsýningar

Kjörgripur
  • Geirfugl

Geirfuglinn

Fyrsti kjörgripur Sjónarhorna 18.4.2015 - 18.4.2016

Samstarfsverkefni Náttúruminjasafns Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands.

 

Geirfugl er útdauð tegund af ætt svartfugla,
en fyrir um þúsund árum var hann algengur
varpfugl á útskerjum við norðanvert Atlantshaf.
Geirfuglar voru eftirsótt bráð. Þeir voru stórir,
feitir og matarmiklir og vó hver fugl um 5 kg.
Fuglarnir voru ófleygir og hægir til gangs,
og því auðvelt að fanga þá á landi.
Ætla má að fljótt hafi gengið á geirfuglastofna
við landnám Evrópumanna á Íslandi og norðausturströnd
Ameríku. Heimildir benda þó til
að geirfugla hafi enn verið að finna í nokkrum
mæli við Ísland á 17. öld, en um og eftir miðja
18. öld virðast þeir orðnir fremur sjaldséðir.
Geirfuglinn sem hér er til sýnis er eign íslensku
þjóðarinnar og var keyptur á uppboði í London
árið 1971 fyrir söfnunarfé. Fyrir fuglinn var
greitt andvirði þriggja herbergja íbúðar.
Þetta er eini geirfuglinn sem til er á Íslandi og
er hann varðveittur á Náttúrufræðistofnun
Íslands ásamt einu geirfuglseggi. Fuglinn
var líklega veiddur árið 1821 við Hólmsberg á
Miðnesi. Talið er að síðustu tveir geirfuglarnir
hafi verið drepnir í Eldey undan Reykjanesi
3. júní 1844. Þar með varð tegundin útdauð.
Aðeins um 80 geirfuglar og 75 geirfuglsegg
eru til í söfnum erlendis og eru flestir gripirnir
frá Íslandi.
Útrýming geirfuglsins er svartur blettur
í sögu mannkyns. Hafa verður í huga að
vitneskja og þekking um náttúru og umhverfi
var takmarkaðri þá en nú. Af þessum atburði
má hins vegar draga mikilvægan lærdóm um
samskipti manna og umgengni við náttúruna.
„Saga geirfuglsins á að kenna okkur að fara
varlega með þá fugla, sem er að fækka að tölu
hjer á landi, t.d. haförn, skúm o.fl., og minnast
þess, að þeim arfi í fuglum, sem menn hafa tekið
við frá fyrri kynslóðum, á að skila aftur til
eftirkomendanna.“

Heimild:

Peter Nielsen. 1925.
Skýrsla um Hið íslenska náttúrufræðifélag
1923 – 1924.

Fyrri kjörgripir

Samstarfsstofnanir

Sýningin Sjónarhorn í Safnahúsinu er samstarfsverkefni höfuðsafna landsins og stofnana sem tengjast sögu þess. Þær eru Þjóðminjasafn Íslands sem jafnframt sér um rekstur hússins, Listasafn Íslands , Náttúruminjasafn Íslands , Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn og Þjóðskjalasafn Íslands.